Innlent

Ekki hægt að anna skimunum á bólu­settum við landa­mærin

Óttar Kolbeinsson Proppé og Birgir Olgeirsson skrifa
Ingibjörg Salóme er verkefnastjóri hjá heilsugæslunni og sér um skimunarverkefnið við landamærin.
Ingibjörg Salóme er verkefnastjóri hjá heilsugæslunni og sér um skimunarverkefnið við landamærin. vísir

Ingi­björg Salóme Stein­dórs­dóttir, verk­efna­stjóri hjá heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins, segir ekki hægt að anna á­fram­ham­haldandi skimunum á bólu­settum og þeim sem eru með mót­efna­vott­orð á landa­mærunum.

Ferða­manna­straumurinn til landsins hefur aukist tals­vert síðustu vikur en í gær komu um fjögur þúsund manns til landsins. Hlut­fall bólu­settra og þeirra sem eru með mót­efna­vott­orð er um 80 prósent af þeim.

Heilsu­gæsla höfuð­borgar­svæðisins skipu­leggur sýna­tökur á Kefla­víkur­flug­velli.

„Við höfum bara ekki starfs­fólk til að sinna öllum þessum ferða­mönnum,“ segir Ingi­björg Salóme. „Þeim fjölgar stöðugt og við erum bara ekki að ná að ráða í allar þessar stöður sem þyrfti til að taka sýni og fara yfir öll vott­orð.“

Verkefnið færist til Landspítalans

Sótt­varna­læknir hefur sagst stefna að því að hætta að skima þennan hóp við landa­mærin um mánaða­mótin, enda hlut­fall smitaðra afar lágt og engin dreifing út frá þeim.

„Á­lagið hefur verið að stig­magnast í sýna­tökum og ef við hættum til dæmis ekki að taka sýni úr bólu­settum og þeim sem hafa smitast þá verður eitt­hvað undan að láta, held ég,“ sagði Ingi­björg Salóme.

Karl G Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar.mynd/Baldur Hrafnkell Jónsson

Ís­lensk erfða­greining hefur hjálpað við landa­mæra­skimanirnar. Um mánaða­mótin flyst verk­efnið þó al­farið til sýkla- og veiru­fræði­deildar Land­spítalans.

„Við nú­verandi að­stæður þá yrði það mjög mikið álag á deildina ef að þannig héldi á­fram og það yrði aukning á því,“ segir Karl G. Kristins­son, yfir­læknir deildarinnar.

„Það er mögu­leiki að það verði breytt um skil­yrði fyrir skimanirnar sem myndi þá létta tölu­vert á. Þar að auki eigum við von á öðru greiningar­tæki, sams­konar og við erum með.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×