Erlent

Evrópu­sam­bandið vill draga úr fram­boði á bresku sjón­varps­efni

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Breskt drama hefur lengi verið langvinsælasta evrópska sjónvarpsefnið.
Breskt drama hefur lengi verið langvinsælasta evrópska sjónvarpsefnið. getty/Richard Baker

Evrópu­sam­bandið hyggst skerða hlut breskra sjón­varps­fram­leið­enda á mörkuðum sínum eftir að Bret­land gekk úr sam­bandinu. Bret­land er stærsti fram­leiðandi sjón­varps­efnis í Evrópu með mikil yfir­ráð á þeim markaði.

Í ó­birtu minnis­blaði frá Evrópu­sam­bandinu, sem breski miðillinn The Guar­dian segist hafa lesið, er yfir­ráðum Bret­lands á sjón­varps­markaðinum lýst sem ógn við menningar­fjöl­breytni Evrópu­sam­bands­ríkjanna.

Sam­kvæmt nú­verandi reglum sam­bandsins verður alla­vega þrjá­tíu prósent af því efni sem sjón­varps­stöðvar aðildar­ríkjanna sýna að vera evrópskt. Sum ríki hafa tekið þetta enn lengra, til dæmis Frakk­land en þar verður sex­tíu prósent sjón­varps­efnis að vera evrópskt.

Breskt efni flokkast auð­vitað sem evrópskt í þessu kvótakerfi en Evrópu­sam­bandið hefur nú á­hyggjur af því að lang­stærstur hluti þess evrópska efnis sem aðildar­ríkin sýna sé breskt.

Það ógni stöðu kvik­mynda- og sjón­varps­þátta­gerðar annarra evrópskra ríkja, sér­stak­lega þeirra sem eru smærri og með tungu­mál sem færri tala.

Fram­kvæmda­stjórn Evrópu­sam­bandsins hefur nú verið falið að greina hættuna sem steðjar að menningar­fjöl­breytni aðildar­ríkjanna vegna bresks sjón­varps­efnis. Heimildir The Guar­dian herma að þetta sé fyrsta skref sam­bandsins í því að draga úr hlut breskra sjón­varps­fram­leið­enda á mörkuðum sínum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×