Íslenski boltinn

22 ára aldursmunur á markaskorurunum Fylkismanna í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Borgþórsson, Helgi Valur Daníelsson og Dagur Dan Þórhallsson fagna hér saman einu marka Fylkisliðsins í gær ásamt liðsfélögum sínum.
Óskar Borgþórsson, Helgi Valur Daníelsson og Dagur Dan Þórhallsson fagna hér saman einu marka Fylkisliðsins í gær ásamt liðsfélögum sínum. Vísir/Hulda Margrét

Fylkismenn settu nær örugglega nýtt met í sigri sínum á Skagamönnum í Pepsi Max deild karla. Þá skoruðu nýliði og mikill reynslubolti í sama leiknum.

Helgi Valur Daníelsson og Óskar Borgþórsson voru meðal markaskorara Árbæjarliðsins og settu um leið líklega met í efstu deild karla.

Helgi jafnaði metin eftir að Skagamenn komust yfir í upphafi leiks en Óskar kom Fylki síðan í 2-1 þrjátíu mínútum síðar. Dagur Dan Þórhallsson innsiglaði síðan sigurinn.

Helgi Valur er nefnilega fæddur árið 13. júlí 1981 en Óskar kom ekki í heiminn fyrr en 15. júlí 2003. Það eru því meira en 22 ár á milli þeirra.

Svo skemmtilega vill til að Helgi Valur var að spila með Fylkisliðinu í úrvalsdeildinni kvöldið áður en Óskar fæddist.

Helgi lék þá með Fylki í 2-1 sigri á Fram á Laugardalsvellinum.

Óskar var þarna í byrjunarliði í fyrsta sinn í efstu deild en hann hafði þrisvar sinnum áður komið inn á sem varamaður. Á meðan Óskar var að spila sinn fjórða úrvalsdeildarleik fyrir Fylki þá var Helgi Valur að spila leik númer 111.

Helgi Valur spilaði sinn fyrsta byrjunarliðsleik með Fylki í efstu deild í 5-0 sigri á Breiðabliki 1. júní árið 2000 eða fyrir rúmu 21 ári síðan. Þá var Dagur Dan, hinn markaskorari Fylkismanna í gær, ekki orðinn eins mánaða.

Það voru enn fremur liðin tæp átta ár síðan að svo gamall leikmaður skoraði í úrvalsdeildinni.

Helgi Valur varð í gær elsti markaskorarinn í Pepsi Max deildinni síðan að Dean Edward Martin skoraði fyrir ÍA á móti FH í september 2012.

Martin var þá 40 ára og 20 daga en Helgi Valur fagnar fertugsafmæli sínu eftir tæpan mánuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×