Erlent

Gripið til neyðarstöðvunar í eina kjarnorkuveri Írans

Kjartan Kjartansson skrifar
Bushehr-kjarnorkuverið í sunnanverðu Íran árið 2010.
Bushehr-kjarnorkuverið í sunnanverðu Íran árið 2010. AP/Mehr News Agency/Majid Asaripour

Stjórnendur eina kjarnorkuvers Írans gripu til neyðarstöðvunar þess um helgina. Stjórnvöld hafa ekki gefið skýringar á á stöðvuninni en varað við því að rafmagni gæti slegið út tímabundið í nokkra daga.

AP-fréttastofan segir að fulltrúi ríkisraforkufyrirtækisins Tavanir hafi greint frá því í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi að starfsemi Bushehr-kjarnorkuversins hefði verið stöðvuð á laugardag. Það yrði stopp í þrjá til fjóra daga. Fyrr um daginn hafði Tavanir tilkynnt að viðgerðir ættu að hefjast á verinu sem stæðu fram á föstudag.

Þetta er í fyrsta skipti sem neyðarstöðvun kjarnaofna hefur átt sér stað í kjarnorkuverinu í hafnarborginni Bushehr. Írönsk yfirvöld tóku það í notkun árið 2011 með aðstoð Rússa. Verið sætir eftirliti Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar (IAEA). Stofnunin segist hafa heyrt fréttir af neyðarstöðvuninni en vildi ekki tjá sig frekar um það við AP.

Bushehr liggur á virku jarðskjálftasvæði og var kjarnorkuverið hannað til að þola stóra skjálfta. Engir meiriháttar jarðskjálftar hafa skekið svæðið nýlega. Írönsk yfirvöld hafa haft áhyggjur af því að starfsemi kjarnorkuversins gæti lamast því þau geta ekki nálgast varahluti og búnað frá Rússlandi vegna viðskiptaþvingana sem Bandaríkjastjórn lagði á árið 2018.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×