Erlent

Evrópsk lögregluyfirvöld handtaka 73 í tengslum við mansal

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ákveðin fyrirtæki hafa verið til sérstakrar skoðunar, til dæmis naglasnyrtistofur, sem hafa verið tengdar við misnotkun einstaklinga frá Víetnam.
Ákveðin fyrirtæki hafa verið til sérstakrar skoðunar, til dæmis naglasnyrtistofur, sem hafa verið tengdar við misnotkun einstaklinga frá Víetnam. Europol

Lögregluyfirvöld í Evrópu hafa handtekið 73 einstaklinga fyrir mansal og telja sig hafa fundið 630 möguleg fórnarlömb mansals og misnotkunar af ýmsu tagi. Tuttugu og þrjú ríki tóku þátt í umræddum aðgerðum.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Europol.

Þar segir að á tímabilinu 31. maí til 6. júní hafi lögregla víðsvegar í Evrópu handtekið 229 einstaklinga, ráðist í húsleit á fleiri en 4.890 stöðum og gert leit í 16.530 bifreiðum. Þá hafa aðgerðirnar leitt af sér 750 nýjar rannsóknir, þar af 150 í tengslum við mansal.

Auk lögreglu tóku þátt í aðgerðunum útlendingaeftirlitsmenn og landamæraverðir, vinnueftirlitsmenn og fulltrúar skattayfirvalda. Til skoðunar voru vinnuaflsfrekar atvinnugreinar, þar sem starfsmenn eru almennt viðkvæmari fyrir misnotkun, meðal annars vegna þess að þeir eru ekki meðvitaðir um þau réttindi sem þeir eiga að njóta.

Rannsóknin náði einnig til einstaklinga sem vinna allan sólahringinn við umönnun manna eða dýra, til dæmis inni á heimilum. Þá hafa ákveðin fyrirtæki verið til sérstakrar skoðunar, til dæmis naglasnyrtistofur, sem hafa verið tengdar við misnotkun einstaklinga frá Víetnam.

Í tilkynningu Europol segir að farandverkamenn sem hafa komið til Evrópu frá öðrum heimsálfum séu sérstaklega viðkvæmir fyrir, þar sem þeir eru oft skuldum vafnir eftir ferðalag sitt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×