Erlent

Leita að eins árs stúlku eftir að lík systur hennar fannst í sjónum undan ströndum Tenerife

Kjartan Kjartansson skrifar
Skip Hafrannsóknastofnunar Spánar leggur leitinni að systrunum lið. Lík annarrar stúlkunnar fannst í vikunni.
Skip Hafrannsóknastofnunar Spánar leggur leitinni að systrunum lið. Lík annarrar stúlkunnar fannst í vikunni. Vísir/EPA

Spænsk yfirvöld leita nú að eins árs gamalli stúlku eftir að lík sem er talið af sex ára gamalli systur hennar fannst í sjónum nærri bát föður þeirra undan ströndum Tenerife. Föðurins er einnig saknað en hann er grunaður um að hafa myrt dætur sínar.

Lík sex ára gamallar stúlku fannst í íþróttatösku og bundið við akkeri á þúsund metra dýpi nærri þeim stað sem leitarflokkar fundur mannslausan bát karlmannsins á reki. Réttarmeinafræðingar hafa staðfest að líkið sé af eldri systurinni, að sögn AP-fréttastofunnar.

Önnur íþróttataska fannst nærri hinni en sú var tóm. Leit stendur enn yfir að yngri stúlkunni og föðurnum.

Faðirinn heitir Tomás Gimeno en hann er grunaður um að standa að hvarfi dætra sinna, Oliviu sem er sex ára og Önnu sem er eins árs. Hann skilaði stúlkunum ekki til móður sinnar þegar honum bar að gera það í lok apríl, að sögn Reuters-fréttastofunnar

Beatriz Zimmermann, móðir stúlknanna og fyrrverandi eiginkona Gimeno, hefur haldið því fram að hann hafi hótað því að hún fengi aldrei aftur að sjá dætur sínar.

Hvarf systranna hefur slegið marga óhugi á Spáni. Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, sendi samúðarkveðjur til móður stúlknanna og ástvina hennar á Twitter.

„Ég get ekki ímyndað mér sársauka móður Önnu litlu og Oliviu sem hurfu á Tenerife vegna þeirra hræðilegu frétta sem við vorum að fá,“ tísti Sánchez.

Kvenréttindasamtök hafa boðað til mótmæla um allt land í dag vegna vaxandi ofbeldis gegn konum sem hefur lengi verið viðvarandi vandamál á Spáni. Karlmenn hafa drepið átján konur á Spáni það sem af er ári samkvæmt jafnréttisráðuneyti landsins. Frá því að byrjað var að halda utan um slíka tölfræði árið 2013 hafa 1.096 konur verið drepnar. Ofbeldisfullir karlmenn hafa einnig notað börn til þess að koma höggi á núverandi eða fyrrverandi maka. Frá 2013 hafa 39 börn verið myrt af líffræðilegum feðrum sínum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.