Erlent

Bretland gefi 100 milljónir skammta bóluefnis

Árni Sæberg skrifar
Boris Johnson vill bólusetja allan heiminn.
Boris Johnson vill bólusetja allan heiminn. WPA Pool/Getty

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretland, tilkynnti í dag að Bretland myndi gefa rúmlega 100 milljónir skammta bóluefnis til fátækari landa.

Umfram bóluefni Breta verður gefið þeim löndum sem skortir bóluefni. Boris Johnson gaf út tilkynningu þess efnis í aðdraganda G7 leiðtogafundarins sem fer fram í Cornwall á Bretlandi um helgina.

„Ein afleiðinga góðs gengis bólusetningarherferðar Breta er að nú erum við í stöðu til að deila umframskömmtum til þeirra landa sem meira þurfa á þeim að halda. Með því tökum við stórt skref í átt að því að kveða faraldurinn í kút fyrir fullt og allt,“ er haft eftir forsætisráðherranum.

Þá sagði hann einnig að hann voni að hinir leiðtogarnir á G7 fundinum fylgi fordæmi hans svo unnt verði að bólusetja allan heiminn fyrir lok þessa árs.

Í frétt breska ríkisútvarpssins segir að búist sé við að leiðtogarnir samþykki á fundinum að gefa samanlagt meira en einn milljarð bóluefnaskammta. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í Cornwall: „Bandaríkin munu gefa hálfan milljarð skammta skilyrðislaust, skilyrðislaust.“

Johnson vill einnig að hinir leiðtogarnir á fundinum hvetji lyfjafyrirtæki landa þeirra til að selja bóluefni á kostnaðarverði. AstraZeneca selur bóluefni á kostnaðarverði, eftir hvatningu Johnsons til þess.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.