Erlent

Lang­flest Afríku­ríki ná ekki bólu­setningar­mark­miði

Kjartan Kjartansson skrifar
Fólk bíður eftir að vera bólusett í Suður-Afríku. Takmarkað framboð hefur verið á bóluefnum gegn Covid-19 í flestum Afríkuríkjum.
Fólk bíður eftir að vera bólusett í Suður-Afríku. Takmarkað framboð hefur verið á bóluefnum gegn Covid-19 í flestum Afríkuríkjum. Vísir/EPA

Níu af hverjum tíu Afríkuríkjum ná ekki markmiði um að bólusetja 10% íbúa sinna fyrir september, að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins er nú í uppsiglingu víða í álfunni.

Afar hægt hefur gengið að bólusetja gegn kórónuveirunni í Afríku. Matshidiso Moetl, svæðisstjóri WHO í Afríku, segir að 225 milljónir skammta af bóluefni þurfi til viðbótar svo að Afríkulönd nái að 10% markmiðinu.

„Nú þegar bóluefnabirgðir og sendingar eru að verða á þrotum er bólusetningarhlutfall í álfunni fyrir fyrsta skammt fast í 2% og um 1% í Afríku sunnan Saharaeyðimerkurinnar,“ sagði Moetl á vikulegum upplýsingafundi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Bandaríkjastjórn hefur sagst ætla að kaupa hálfan milljarða skammta af bóluefni Pfizer til að gefa 90 þróunarríkjum. Moetl sagði það mikilvægt skref til að auka framboð á bóluefni í Afríku.

Fjórtán Afríkuríki stefna nú hraðbyri inn í þriðju bylgju faraldursins þar. Á öðrum upplýsingafundi WHO í dag kom fram að indverska afbrigðið svonefnda væri að ná fótfestu í álfunni. Fylgst væri grannt með því hvort að samband sé á milli afbrigðisins og þriðju bylgjunnar.


Tengdar fréttir

Bandaríkin ætla að gefa 80 milljónir skammta í júní

Ríkisstjórn Bandaríkjanna tilkynnti í dag að til stæði að gefa 80 milljónir skammta bóluefna til annarra ríkja í júní. Mest allt af því mun fara til COVAX-áætlunar Sameinuðu þjóðanna en hingað til hafa ríki þar sem þörfin er mikil fengið 76 milljónir skammta í gegnum áætlunina.

Bakslag fyrir bólusetningaráætlun Sameinuðu þjóðanna

Verulegt bakslag er komið í áætlanir Sameinuðu þjóðanna um að bólusetja fólk í þróunarríkjum gegn kórónuveirunni eftir að stærsti framleiðandi bóluefna í heiminum á Indlandi sagðist ekki geta afhent fleiri skammta fyrr en í lok þessa árs.

Af­hending á bólu­efnum til snauðra ríkja nær stöðvast

Nær ekkert hefur verið afhent af bóluefni gegn kórónuveirunni til fátækustu ríkja heims frá því á mánudag og nú stefnir í að allt að sextíu ríki geti ekki gefið seinni skammt af bóluefni fyrr en í júní. Forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar gagnrýnir harðlega misskiptingu í bólusetningum á milli ríkra þjóða og snauðra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.