Íslenski boltinn

Tvö tilboð borist í Brynjar Inga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brynjar Ingi og Aron Einar Gunnarsson í 2-2 jafnteflinu við Pólland fyrr í dag.
Brynjar Ingi og Aron Einar Gunnarsson í 2-2 jafnteflinu við Pólland fyrr í dag. Boris Streubel/Getty Images

Brynjar Ingi Bjarnason hefur skotist upp á stjörnuhimininn undanfarnar vikur. Eftir frábæra byrjun með KA í Pepsi Max deildinni þá hefur hann nú spilað þrjá A-landsleiki í röð og skoraði hann sitt fyrsta mark í 2-2 jafnteflinu við Pólland í dag.

Samkvæmt Akureyri.net hefur KA fengið tvö tilboð í miðvörðinn unga. Annað kemur frá Rússlandi og hitt frá Ítalíu.

Hinn 21 árs gamli Brynjar Ingi hefur vakið mikla athygli hérlendis í upphafi móts en hann hefur vart stigið feilspor í hjarta varnar KA í sumar. Frammistaða hans með íslenska landsliðinu í 2-1 tapinu gegn Mexíkó, 1-0 sigrinum á Færeyjum og 2-2 jafnteflinu gegn Póllandi hefur hins vegar vakið athygli félaga sem eru ekki staðsett á Fróni.

Nú hefur verið staðfest að KA hafi fengið tvö tilboð í miðvörðinn sem og að lið á Norðurlöndunum hafi áhuga þó engin tilboð hafi borist.

Íslenskir varnarmenn virðast í miklum metum í Rússlandi en Hörður Björgvin Magnússon leikur með CSKA Moskvu, Sverrir Ingi Ingason lék með Rostov frá 2017 til 2019 og Ragnar Sigurðsson lék með Krasnodar, Rubin Kazan og Rostov á sínum tíma. Þá lék Jón Guðni Fjóluson einnig með Krasnodar á sínum tíma.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.