Innlent

Hraunspýja rauf vestari varnargarðinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ný vefmyndavél var sett upp við vestari garðinn í gær, rétt í tæka tíð til þess að mynda framhlaupið, sem hér sést á tveimur myndum.
Ný vefmyndavél var sett upp við vestari garðinn í gær, rétt í tæka tíð til þess að mynda framhlaupið, sem hér sést á tveimur myndum. Veðurstofan

Hraunspýja braut sér leið meðfram útsýnishólnum við eldstöðvarnar við Fagradalsfjall í morgun og streymdi loks yfir vestari varnargarðinn, sem reistur var í Syðri-Meradölum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Þar segir að í morgun hafi vakt Veðurstofunnar tekið eftir auknum óróa og gasútstreymi á mælum við eldgosið.

„Stuttu síðar sást spýja brjóta sér leið meðfram útsýnishólnum og loks yfir vestari varnargarðinn. Í gær var sett upp ný vefmyndavél við vestari garðinn, rétt í tæka tíð til þess að mynda framhlaupið,“ segir í tilkynningu.

Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að hraunspýja hafi áður farið yfir vestari garðinn, um það bil á sama tíma og eystri varnargarðurinn var rofinn. 

„Það var smá spýja og fór rétt fyrir framan garðinn, fór ekki lengra en það. Hraun hefur ekki farið svona langt yfir áður,“ segir Elísabet.

Hún segir atburðarásina í morgun hafa verið nokkuð hraða og að áfram flæði hraun yfir garðinn. Spennandi verði að sjá myndir úr Nátthaga þegar rofi til en slæmt skyggni er nú við gosstöðvarnar, líkt og sést í vefmyndavél Vísis hér fyrir neðan.

Tveir varnargarðar voru reistir í síðasta mánuði sem tilraun til að stemma stigu við hraunflæði frá gosinu en vestari varnargarðurinn hefur þegar verið rofinn. Þá var greint frá því í gær að hraun væri komið yfir gönguleiðina upp á hól sem nýst hefur sem útsýnisstaður við gosstöðvarnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Ekki hægt að setja verðmiða á umfjöllun 60 mínútna

Umfjöllun erlendra fjölmiðla um eldgosið í Geldingadölum hefur reynst Íslendingum ómetanleg, að mati Íslandsstofu. Bjart sé yfir ferðaþjónustunni á næstu misserum en mikilvægt að halda rétt á spilunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×