Innlent

Geldingadalir gætu fyllst og hraunið leitað niður gönguleiðina

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Eldgosið við Fagradalsfjall.
Eldgosið við Fagradalsfjall. Vísir/vilhelm

Óvíst er hvenær hraun nær Suðurstrandarvegi; sumir telja að það gæti orðið eftir vikur en aðrir mánuði. Kannað verður á næstu dögum hvort reisa eigi leiðigarða við gosið.

Hraun safnast nú á fjóra staði við eldstöðina; í nafnlausa dalnum svokallaða, norðar í Meradölum, í Geldingadölum og í Nátthaga. Hluti hraunsins leitar í suður og gæti náð Suðurstrandarvegi á endanum. Stysta leiðin að veginum er úr Nátthaga, rúmir tveir kílómetrar, en hraun gæti þó einnig náð að veginum úr Meradölum. 

Ágiskanir um hversu lengi hraun verður að veginum eru mismunandi - allt frá einni til tveimur vikum og upp í mánuði.

„Ef þetta gerist með sama hætti í Nátthaga og það heldur áfram eins og það hefur verið að gera, að renna niður í Geldingadali og Meradali, þá tekur þetta svona þrjá fjóra mánuði áður en það fer að ná út úr Nátthaganum.“

Magnús Tumi Guðmundsson, eldfjallafræðingur.Vísir/vilhelm

Þá gæti hraunið lagst í eina áttina frekar en aðra.

„Eitt af því sem gæti gerst er að Geldingadalir fyllist og þá fari hraunið að leita niður gönguleiðina þá fer nú ýmislegt að breytast varðandi aðkomu.“

Í vikunni verður kannað hvort reisa eigi leiðigarða til að stýra hraunflæðinu, eftir að hraun flæddi yfir varnargarða sem áttu að vernda veginn.

„Það [hraunið] mun fara yfir svæði þar sem ljósleiðarinn er, það mun fara yfir Suðurstrandarveg og fara út í sjó - en það þarf að halda áfram í marga mánuði til þess,“ segir Magnús Tumi.

„Það er hægt að hafa áhrif á hvert það rennur og hvenær og það er það sem fólk er að skoða.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×