Erlent

Sest í helgan stein eftir far­sælan feril sem sprengju­leitar­rotta

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Magawa með medalíuna sem hann fékk á síðasta ári, fyrir vel unnin störf.
Magawa með medalíuna sem hann fékk á síðasta ári, fyrir vel unnin störf. Apopo

Rottan Magawa, sem hlotið hefur gullna medalíu fyrir hetjudáðir sínar, hefur sest í helgan stein og lætur af störfum sem sprengjuleitarrotta.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að þessi afríska risapokarotta ætli nú að njóta þess sem eftir er af ævinni eftir að hafa þefað uppi 71 jarðsprengju og aðrar ósprungnar sprengjur í Kambódíu.

Talið er að hátt í sex milljónir jarðsprengja séu grafnar víðs vegar um Kambódíu eftir borgarastyrjöld sem geisaði í landinu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Haft er eftir Malen, þjálfara rottunnar knáu, að tekið sé að hægjast á Magawa og því sé best að „virða óskir hans“ um áhyggjulaust ævikvöld. Rottur á borð við Magawa verða að meðaltali um sjö ára gamlar.

Magawa var sérstaklega þjálfaður af belgísku samtökunum Apopo, sem eiga höfuðstöðvar í Tansaníu og sérhæfa sig í því að þjálfa rottur á borð við Magawa til að leita uppi jarðsprengjur. Þá eru rotturnar einnig þjálfaðar til að finna berkla í fólki.

Samkvæmt samtökunum er Magawa ein sú besta rotta sem notið hefur við í sprengjuleitargeiranum og í síðasta mánuði var honum veitt gullmedalía frá PDSA-samtökunum, sem eru bresk góðgerðasamtök stofnuð utan um velferð gæludýra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.