Íslenski boltinn

Handalögmál á hliðarlínunni í Grindavík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erlendur Eiríksson, dómari leiks Grindavíkur og Selfoss, gengur á milli þeirra Hauks Valbergs Einarssonar og Óskars Valbergs Arilíussonar eftir að þeim lenti saman.
Erlendur Eiríksson, dómari leiks Grindavíkur og Selfoss, gengur á milli þeirra Hauks Valbergs Einarssonar og Óskars Valbergs Arilíussonar eftir að þeim lenti saman.

Mönnum var heitt í hamsi á hliðarlínunni undir lok leiks Grindavíkur og Selfoss í Lengjudeild karla í gær. Eitt gult spjald og eitt rautt fóru á loft.

Í uppbótartíma fékk Grindavík innkast á miðjum vellinum, þeim megin sem varamannabekkirnir eru. 

Óskari Valberg Arilíussyni, sem var skráður sem aðstoðarþjálfari á skýrslu, fannst boltastrákur Grindavíkur vera full lengi að koma boltanum í leik og hljóp að honum.

Á leið sinni til baka frá boltastráknum stjakaði Óskar við Sigurbirni Hreiðarssyni, þjálfara Grindavíkur, og svo liðsstjóranum Hauki Guðberg Einarssyni sem svaraði í sömu mynt.

Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, kom þá aðvífandi og stíaði þeim í sundur. Hann gaf Óskari gula spjaldið en Hauki það rauða.

Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan. Myndasyrpu af því má svo sjá á vef Víkurfrétta.

Grindavík vann leikinn, 1-0, með marki Arons Jóhannssonar á 63. mínútu. Grindvíkingar eru í 3. sæti Lengjudeildarinnar með níu stig, þremur stigum á eftir toppliði Frammara. Selfyssingar eru aftur á móti í ellefta og næstneðsta sætinu með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×