Erlent

Annað kínverskt bóluefni fær neyðarskráningu

Kjartan Kjartansson skrifar
Bóluefni Sinovac má nú nota á vegum Sameinuðu þjóðanna eftir að WHO skráði það til neyðarnotkunar gegn Covid-19.
Bóluefni Sinovac má nú nota á vegum Sameinuðu þjóðanna eftir að WHO skráði það til neyðarnotkunar gegn Covid-19. AP/Matias Delacroix

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur skráð bóluefni kínverska fyrirtækisins Sinovac gegn kórónuveirunni til neyðarnotkunar fyrir fólk eldra en átján ára. Það er annað kínverska bóluefnið sem fær slíka heimild.

Í tilkynningu frá WHO kemur fram að gögn sem voru lögð fram með Sinovac-bóluefnin sýni að tveir skammtar af því hafi komið í veg fyrir einkenni Covid-19 hjá um helmingi þeirra sem fengu efnið í tilraun. Ekki sé hægt að meta hversu virkt efnið er fyrir fólk eldra en sextugt vegna þess hversu fáir úr eldri aldurshópum tóku þátt í rannsókninni.

Líkur eru þó taldar á því að bóluefnið veiti eldra fólki vernd gegn Covid-19 og því leggur WHO ekki til aldurstakmörk á notkun þess, að sögn AP-fréttastofunnar.

Áður hafði bóluefni Sinopharm fengið skráningu til neyðarnotkunar gegn Covid-19 hjá WHO. Stofnunin hefur ennfremur gefið grænt ljós á bóluefni frá Pfizer-BioNTech, AstraZeneca, Moderna og Johnson & Johnson.

Skráningin þýðir að hægt er að nota bóluefni Sinovac á vegum Sameinuðu þjóðanna í þróunarlöndum, þar á meðal í Covax-verkefninu svonefnda.

Evrópska lyfjastofnunin hefur ekki enn lokið skoðun sinni á umsókn um skráningu bóluefnis Sinovac. Rannsókn á notkun efnisins í Brasilíu bendir til þess að virkni þess sé yfir 50%. Í annarri rannsókn á notkun efnisins í Síle reyndist virknin 67%.


Tengdar fréttir

WHO sam­þykkir bólu­efni Sin­op­harm

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hefur veitt Covid-bóluefni kínverska lyfjaframleiðandans Sinopharm neyðarleyfi. Það er fyrsta bóluefnið sem ekki er framleitt á vesturlöndum sem fær samþykki stofnunarinnar.

Bóluefni Sinovac komið í áfangamat hjá EMA

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur hafið áfangamat á bóluefni kínverska líftæknifyrirtækisins Sinovac gegn Covid-19. Er fyrirtækið þar með komið einu skrefi nær því geta sótt um markaðsleyfi í Evrópu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×