Innlent

Á bak við lás og slá eftir alvarlegar hótanir í garð blaða- og lögreglumanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karlmaðurinn hafði meðal annars í hótunum við starfsfólk Ríkisútvarpsins.
Karlmaðurinn hafði meðal annars í hótunum við starfsfólk Ríkisútvarpsins. Vísir/Vilhelm

Karlmaður sem hafði í hótunum við ýmsa aðila í gær, þeirra á meðal fréttamenn DV, starfsmenn Ríkisútvarpsins og lögreglu, er kominn bak við lás og slá. Hann verður yfirheyrður vegna málsins á næstu dögum eða vikum.

Mbl greindi fyrst frá málinu. Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir hótanirnar sem bárust hafa verið mjög alvarlegar. Meðal annars hafi karlmaðurinn, sem er á miðjum aldri, hótað því að skera ungan lögreglumann á háls.

Hótanir voru bæði í formi tölvupósta, á samfélagsmiðlum og í símtölum. Þá hótaði hann enn lögreglumönnum sem handtóku hann síðdegis í gær.

Guðmundur Páll segir kærur hafa borist vegna hótana og enn sé von á fleirum. Karlmaðurinn átti eftir að ljúka afplánun í öðru máli og var því færður beint í fangelsi í gær. Til stendur að yfirheyra hann vegna kæranna á næstu dögum eða vikum.

Um er að ræða annan karlmann en þann sem handtekinn var snemma í maí vegna gruns um að hafa hringt inn sprengjuhótun til Ríkisútvarpsins. Sá mun hafa verið af erlendu bergi brotinn en sá sem handtekinn var í gær er íslenskur, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri vildi lítið ræða málið að öðru leyti en því að það væri yfirstaðið og brugðist við því í samræmi við verklag stofnunarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.