Innlent

Maður sem sendi RÚV sprengjuhótun handtekinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Samkvæmt hótuninni átti sprengja að springa utan við Útvarpshúsið í gærkvöldi en hún reyndist innantóm.
Samkvæmt hótuninni átti sprengja að springa utan við Útvarpshúsið í gærkvöldi en hún reyndist innantóm. Vísir/Vilhelm

Ekkert óeðlilegt fannst í Útvarpshúsinu eftir að maður hringdi inn sprengjuhótun til Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Sá sem hringdi inn hótunina var handtekinn seinna um kvöldið.

Starfsmaður RÚV tók við símtali klukkan 19:00 um að sprengja ætti að springa utan við Útvarpshúsið seinna um kvöldið í gær, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla fylgdist með svæðinu og leitaði en ekkert óeðlilegt fannst.

Á svæði lögreglustöðvar þrjú fyrir Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes barst tilkynning um að ekið hefði verið á barn á reiðhjóli í gær. Barnið er sagt talið lítið slasað en farið var með það á slysadeild. Lögregla ræddi við ökumanninn og er málið sagt í rannsókn.

Í Hafnarfirði gerði lögregla upptæka ræktun á kannabisplöntum. Einn var handtekinn og yfirheyrður en honum sleppt að því loknu.

Mikið var um útköll vegna hávaða og ölvunar í gærkvöldi og nótt auk þess sem lögregla hafði afskipti af ellefu ökumönnum sem voru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Í póstnúmeri 104 var tilkynnt um líkamsárás en gerandi var farinn af vettvangi þegar lögreglumenn bar að garði. Lögregla telur að fórnarlambið hafi ekki orðið fyrir alvarlegum áverkum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.