Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Tindastóll 2-1| Breiðablik áfram í næstu umferð

Andri Már Eggertsson skrifar
Breiðablik eru komnar áfram í næstu umferð Mjólkurbikarsins
Breiðablik eru komnar áfram í næstu umferð Mjólkurbikarsins Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik fóru áfram í næstu umferð Mjólkurbikarsins eftir að hafa unnið Tindastól 2-1. Breiðablik komust í 2-0 forystu. Tindastóll náði að minnkað leikinn í 2-1 en nær komust þær ekki. 

Fyrri hálfleikur var nánast allur leikinn á vallarhelming Tindastóls þar sem Breiðablik hélt mikið í boltann og komu mjög hátt upp á völlinn.

Hornspyrnur voru aðal einkennismerki fyrri hálfleiksins hjá Blikakonum. Þær fengu 10 hornspyrnur í fyrri hálfleik sem voru mis vel nýttar.

Það var við hæfi að eina mark fyrir hálfleiks kom eftir tæplega fimmtán mínútna leik upp úr hornspyrnu. Agla María Albertsdóttir tók hornið stutt fékk boltann strax aftur og setti boltann fyrir markið beint á kollinn á Heiðdísi Lillýjardóttur sem kom Blikum yfir.

Undir lok fyrri hálfleiks átti Agla María ótrúlegt skot sem hafnaði í innanverða stöngina. Staðan var því 1-0 fyrir Blikum þegar haldið var til hálfleiks.

Í síðari hálfleik fengu gestirnir loks sína fyrstu hornspyrnu, sú hornspyrna skapaði hættulega skyndisókn fyrir Blika sem endaði með að Agla María var kominn í góða stöðu en varnarmaður Tindastóls kastaði sér fyrir boltann.

Agla María kom síðan Blikum í tveggja marka forystu eftir Kristín Dís hafi sent rosalega sendingu yfir vörn Tindastóls og í gegn á Öglu sem fékk Amber út á móti sér og kom þá boltanum í markið.

Skiptingar Tindastól minnkuðu muninn í 2-1. Aldís María Jóhannsdóttir gerði vel í að fara upp hægri kantinn og gefa fyrir markið þar sem Murielle Tiernan kláraði færið og minnkaði muninn. Báðar komu þær inn á sem varamenn.

Tindastóll reyndi að koma inn jöfnunarmarki undir lok leiksins þar sem markmaður liðsins Amber var kominn í teig Blika en það tókst ekki og fór Breiðablik áfram í næstu umferð eftir 2-1 sigur.

Af hverju vann Breiðablik?

Eftir síðasta leik milli þessara liða vissu Blikar að þetta væri langt frá því að vera auðvelt og var það þolinmæðin sem skilaði þessum sigri. 

Breiðablik var yfirburða lið á vellinum sérstaklega í fyrri hálfleik. Þær gerðu á endanum tvö mörk sem dugði og hefðu verið fleiri ef Amber Kristin Michel hefði ekki verið að verja eins mikið og hún gerði.

Hverjar stóðu upp úr?

Agla María Albertsdóttir sá til þess að Breiðablik fór áfram í næstu umferð. Hún átti mjög góðan leik í kvöld. Hún lagði upp fyrsta mark Blika ásamt því að skora sjálf annað markið sem reyndist sigurmark leiksins.

Amber Kristin Michel varði hvert skotið á fætur öðru og var aðal ástæðan fyrir því að Tindastóll tapaði aðeins með einu marki.

Hvað gekk illa?

Fyrri hálfleikur Tindastóls var afar slakur. Þær komust í raun ekkert yfir miðju og áttu þær í erfiðleikum með að tengja saman sendingar til að koma sér framar á völlinn.

Hvað gerist næst?

Breiðablik mætir Keflavík næsta laugardag klukkan 14:00 á Kópavogsvelli.

Á Sauðárkróksvelli næsta laugardag klukkan 16:00 mætast Tindastóll og Valur.

 Sköpuðum fullt af færum sem við hefðum getað nýtt betur

Vilhjálmur Kári var sáttur með sigurinnVísir/Hulda Margrét

Vilhjálmur Kári Haraldsson þjálfari Blika var sáttur með að hans lið væru búnar að tryggja sér farseðilinn í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins.

„Við sköpuðum okkur töluvert af færum, gerðum tvö mörk og því fórum við áfram í næstu umferð. Maður hefði viljað fleiri mörk miðað við færin sem við fengum svo þetta hefði verið afslappaðra," sagði Vilhjálmur

Vilhjálmur var jákvæður eftir leik og var ánægður með öll þau færi sem liðið skapaði sér í kvöld.

„Ég var ánægður með færin sem við sköpuðum. Við vorum þéttar varnarlega en ég hefði viljað nýta tækifærin okkar betur."

„Við fengum margar hornspyrnur í kvöld. Gerðum eitt mark en það vantaði mikið upp á þó nokkrar hjá okkur sem gerði markmanninum þeirra auðvelt fyrir." 

Agla María gerði sigurmark leiksins eftir laglega sendingu frá Kristín Dís og var Vilhjálmur ánægður með sitt lið þar.

„Það var mjög flott mark, það var gott að ná inn þessu seinna marki svo við gátum aðeins slakað á þó það stóð ekki lengi yfir því Tindastóll minnkaði muninn skömmu síðar."

Vilhjálmur hefði viljað sjá sínar stelpur gera betur í marki Tindastól þar sem þær hefðu átt að setja betri pressu á Aldísi Maríu sem lagði upp markið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira