Erlent

Fengu ekki að fljúga inn í lofthelgi Frakklands

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugvélinni var flogið í marga hringi áður en henni var snúið aftur til Minsk.
Flugvélinni var flogið í marga hringi áður en henni var snúið aftur til Minsk. FlightRadar24

Flugvél Belavia, flugfélags frá Hvíta-Rússlandi, sem átti að lenda í Barcelona í dag var snúið aftur til Minsk. Það var gert eftir að flugumferðarstjórar í Póllandi tilkynntu flugstjóra flugvélarinnar að hann fengi ekki leyfi til að fljúga inn í lofthelgi Frakklands.

Flugvélinni var því flogið ítrekað í hringi í lofthelgi Hvíta-Rússlands áður en henni var flogið aftur til Minsk, samkvæmt FlightRadar24.

Í frétt Reuters kemur fram að talsmaður flugumferðarstjórnar Póllands staðfesti að flugstjóra flugvélarinnar hefði verið tilkynnt að hann fengi ekki að fljúga inn í lofthelgi Frakklands. Forsvarsmenn Belavia vildu ekki svara fyrirspurn fréttaveitunnar um málið.

Ráðamenn í Frakklandi tilkynntu á mánudaginn að flugvélum frá Hvíta-Rússlandi yrði ekki leyft að fljúga yfir Frakkland. Varð sú ákvörðun tekin vegna þess að áhöfn flugvélar RyanAir var þvinguð til að lenda í Minsk um helgina svo öryggissveitir Alexander Lúkasjenka gætu handtekið blaðamanninn og aðgerðasinnan Roman Protasevíts og rússneska kærustu hans.

Atvikið hefur vakið mikla reiði meðal ráðamanna í Evrópu, sem hafa lýst því sem flugráni og ríkisstyrktu hryðjuverki. Ríkjum Evrópusambandsins hefur verið gert að meina flugfélögum að fljúga inn í lofthelgi Hvíta-Rússlands. Þá hefur ríkið þegar verið beitt refsiaðgerðum og von er á fleirum.

Belavia hefur sagt að flugfélaginu hafi verið meinað að fljúga inni lofthelgi Litháen, Lettlands, Frakklands, Svíþjóðar, Bretlands, Finnlands, Tékklands og Úkraínu.


Tengdar fréttir

Þörf á alþjóðlegri andstöðu við Lúkasjenka

Hvítrússneskur stjórnarandstæðingur óttast dauðadóm eftir að flugvél RyanAir var snúið af leið og lent í Hvíta-Rússlandi. Málið hefur vakið reiði í Evrópu og Alexander Lúkasjenka, forseti landsins, sætir harðri gagnrýni enn á ný.

„Ég veit að dauðadómur bíður mín í Hvíta-Rússlandi“

Farþegar í flugvél RyanAir sem snúið var af leið og lent í Minsk í Hvíta-Rússlandi um helgina segja blaðamanninn og aðgerðasinnan Roman Protasevíts hafa augljóslega verið hræddan, þegar flugstjóri flugvélarinnar tilkynnti að henni yrði lent í Minsk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×