Erlent

Þrír hand­teknir vegna kláf­ferju­slyssins á Ítalíu

Atli Ísleifsson skrifar
Bilunin kom upp þegar stutt var eftir af um tuttugu mínútna langri ferð kláfferjunnar frá bænum Stresa og upp Mottarone-fjall.
Bilunin kom upp þegar stutt var eftir af um tuttugu mínútna langri ferð kláfferjunnar frá bænum Stresa og upp Mottarone-fjall. AP

Lögregla á Ítalíu hefur handtekið þrjá vegna kláfferjuslyssins í norðurhluta landsins á sunnudag þar sem fjórtán týndu lífi.

Rannsakendur segja að svo virðist sem að neyðarhemlar kláfferjunnar hafi verið gerðar óvirkar og að þrír starfsmenn rekstrarfyrirtækis kláfsins hafi verið kunnugt um það.

BBC hefur eftir talsmanni yfirvalda að kláfferjan hafi verið á rúmlega 100 kílómetra hraða þegar hún hrapaði um tuttugu metra til jarðar. Slysið átti sér stað í hlíðum Mottarone-fjalls nærri Maggiore-vatni í norðurhluta Ítalíu.

Saksóknarar rannsaka hvort að einhverjir hafi gerst sekir um manndráp af gáleysi í tengslum við málið. Hinir handteknu eru að sögn ítalskra fjölmiðla eigandi fyrirtækisins sem starfrækir kláfinn, framkvæmdastjórinn og rekstrarstjórinn. Þeir eru sagðir hafa viðurkennt að hafa gert neyðarhemlakerfi kláfferjunnar óvirkt vegna bilunar sem viðgerðarmönnum hafi ekki tekist að laga.

BBC segir frá því að fimm fjölskyldur hafi verið um borð í ferjunni þegar slysið varð. Tvö börn voru í hópi hinna látnu. Einungis einn komst lífs af úr slysinu, fimm ára ísraelskur drengur, en ástand hans er enn sagt vera alvarlegt.

Kláfurinn opnaði árið 1970, en var ekki í rekstri á árunum 2014 til 2016 vegna framkvæmda.

Bilunin kom upp þegar stutt var eftir af um tuttugu mínútna langri ferð kláfferjunnar frá bænum Stresa og upp Mottarone-fjall.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×