Erlent

Hætta við brott­vísunar­stöð fyrir brot­lega hælis­leit­endur á Langa­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Um 250 íbúar á Langalandi lögðu leið sína til Kaupmannahafnar í gær til að mótmæla áætlunum fyrir utan Kristjánsborg.
Um 250 íbúar á Langalandi lögðu leið sína til Kaupmannahafnar í gær til að mótmæla áætlunum fyrir utan Kristjánsborg. Getty

Ríkisstjórn Danmerkur hefur hætt við áætlanir um að koma upp brottvísunarstöð fyrir brotlega hælisleitendur á Langalandi. Málið hefur mikið verið til umfjöllunar í Danmörku síðustu daga og vikur.

Mattias Tesfaye, ráðherra útlendinga- og aðlögunarmála, tilkynnti um þetta í gærkvöldi. Fyrr um daginn höfðu um 250 íbúar á Langalandi lagt leið sína til Kaupmannahafnar til að mótmæla áætlunum fyrir utan Kristjánsborgarhöll.

Tesfaye sagði frá því að ekki væri meirihluti fyrir málinu á þinginu og því hafi verið ákveðið að bakka. Sagðist ráðherrann vera opinn fyrir öðrum hugmyndum og staðsetningum til að ná samstöðu í málinu, ávallt væri heitt á könnunni.

Til stóð að opna brottvísunarstöðina á Langalandi árið 2022 og átti það að hýsa 130 hælisleitendur sem hafi gerst brotlegir við lög og biðu brottvísunar frá Danmörku.

DR segir frá því að brotlegir hælisleitendur verði nú áfram hýstir til bráðabirgða á Kærshovedgaård á Jótlandi á meðan þeir bíða brottvísunar.

Langaland er ílöng eyja milli Fjóns og Lálands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×