Innlent

Veikindi Páls og þjófnaður á síma sagður til skoðunar

Kjartan Kjartansson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja.
Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja.

Lögmaður Samherja fullyrðir að síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja, hafi verið stolið af honum meðan hann lá alvarlega veikur á sjúkrahúsi. Þá séu skyndileg veikindi Páls til skoðunar.

Páll er hluti af svonefndri „skæruliðadeild Samherja“ sem hefur beitt sér gegn fjölmiðlafólki og gangrýnendum útgerðarfélagsins sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarna daga. Kjarninn og Stundin hafa að undanförnu birt samskipti skæruliðadeildarinnar, sem virðist meðal annars hafa lagt á ráðin um að hafa áhrif á prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum og kjör formanns Blaðamannafélags Íslands, til þess að verja hagsmuni Samherja.

Arna Bryndís McClure, yfirlögfræðingur Samherja, og Þorbjörn Þórðarson, fyrrverandi fréttamaður og núverandi almannatengill Samherja, hafa verið fyrirferðarmikil í umræddri umfjöllun. Bæði virðast þau til að mynda hafa samið pistla þar sem Samherja var komið til varnar, í nafni Páls.

Samherji hefur neitað að tjá sig um samskiptin á þeim forsendum að þeim hafi verið stolið úr síma Páls. Garðar G. Gíslason, lögmaður Samherja, segir nú að síma Páls hafi verið stolið þegar hann lá alvarlega veikur á sjúkrahúsi á Akureyri fyrr í þessum mánuði. Mbl.is sagði fyrst frá í dag.

Í samtali við Vísi staðfestir Garðar að stuldur á símanum hafi verið kærður til lögreglunnar á Akureyri. Hann getur ekki sagt til um hvort að símanum hafi verið stolið á sjúkrahúsinu en eftir því sem hann veit best hafi síminn ekki komið í leitirnar aftur.

Garðar fullyrðir að Páll hafi verið lífshættulega veikur og að sími hans hafi verið tekinn ófrjálsri hendi þegar hann lá á sjúkrahúsi. Veikindi Páls hafi verið svo alvarleg að hann hafi um tíma verið í öndunarvél.

„Maðurinn var mjög alvarlega veikur þegar þetta gerist og það er verið að skoða það líka hvers eðlis þau veikindi voru,“ segir Garðar en ótímabært sé að álykta um hvort að tengsl séu á milli þjófnaðarins og veikindanna.


Tengdar fréttir

„Skæru­liða­deild“ Sam­herja reyndi að hafa á­hrif á for­manns­kjör BÍ

Skæruliðadeild Samherja, svokölluð, gerði tilraunir til þess að hafa áhrif á formannskjör Blaðamannafélags Íslands, sem fór fram í apríl, í von um að koma í veg fyrir að Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður á RÚV, yrði nýr formaður félagsins. Formaður BÍ segir tilraunina ólíðandi og alvarlega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×