Erlent

Biden og Pútín funda í Genf

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fundi Bidens og Pútíns árið 2011.
Frá fundi Bidens og Pútíns árið 2011. AP(Alexei Druzhinin

Joe Biden og Vladimír Pútín, forsetar Bandaríkjanna og Rússlands, munu funda í Genf í næsta mánuði. Verður það fyrsti fundur þeirra tveggja frá því Biden tók við embætti en spenna milli ríkjanna hefur aukist á undanförnum mánuðum.

Biden mun ferðast til Evrópu í næsta mánuði. Fyrst fer hann til Bretlands á leiðtogafund G7 ríkjanna og því næst fer hann til Brussel á leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins. Hann mun síðan eiga fund með Putin í Genf hinn 16. júní.

Í stuttri yfirlýsingu á vef Hvíta hússins segir að Biden vilji ræða við Pútín um ýmis málefni og að markmið ríkisstjórnar Bidens sé að koma stöðugleika á samskipti Rússlands og Bandaríkjanna.

Biden lagði fyrst til við Pútín að þeir myndu hittast er þær ræddu saman í síma í apríl. Þá var ríkisstjórn Bidens að undirbúa refsiaðgerðir gegn Rússlandi í annað sinn á þeim þremur mánuðum sem Biden hafði verið við völd.

Þær refsiaðgerðir voru til komnar vegna þess að eitrað var fyrir Alexei Navalní og vegna SolarWinds tölvuárásarinnar.

Í kosningabaráttu Bidens og Donalds Trump, fyrrverandi forseta, gagnrýndi Biden forvera sinn harðlega fyrir það hvernig hann háttaði samskiptum sínum við Pútín.

Sjá einnig: Ein „skammarlegasta framkoma“ forseta Bandaríkjanna í manna minnum

Skömmu eftir að hann tók við embætti sagði Biden að hann ætlaði að herða afstöðu Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi.

Samkvæmt AP fréttaveitunni sagðist forsetinn til að mynda hafa sagt Pútín í síma að Bandaríkin myndu ekki lengur lúffa fyrir Rússlandi og sætta sig við óvinveittar aðgerðir Rússa. Vísaði hann þar til afskipta af forsetakosningum, tölvuárása og banatilræða með taugaeitri.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.