Erlent

Banna hvítrússneskum flugfélögum að fljúga í evrópskri lofthelgi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Efnt var til mótmæla í Varsjá í gær vegna handtöku blaðamannsins.
Efnt var til mótmæla í Varsjá í gær vegna handtöku blaðamannsins. epa/Wojciech Olkusnik

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hafa bannað flugfélögum frá Hvíta-Rússlandi að fljúga í lofthelgi ESB eftir að þarlend stjórnvöld neyddu flugvél til að lenda í Minsk, þar sem einn farþega var handtekinn.

Eftir fundarhöld í Brussel hefur evrópskum flugfélögum verið ráðið frá því að fljúga yfir Hvíta-Rússland og þá stendur til að taka upp viðskiptaþvinganir gegn landinu.

Handtekni var blaðamaðurinn Roman Protasevich, 26 ára, sem hefur verið gagnrýninn á stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi. Vélin sem um ræðir var á leið frá Grikklandi til Litháen en henni var snúið til Minsk vegna meintrar sprengjuhótunar.

Þegar hún lenti var Protasevich handtekinn.

Í gær birtist myndskeið þar sem blaðamaðurinn segist vera við góða heilsu og virðist játa á sig þá glæpi sem hann hefur verið sakaður um í Hvíta-Rússlandi. Stjórnarandstæðingar segja ljóst að Protasevich hafi verið þvingaður til að játa.

Joe Biden Bandaríkjaforseti er meðal þeirra sem hafa fordæmt aðgerðir hvítrússneskra stjórnvalda og segir þær skammarlega aðför að réttinum til að mótmæla og fjölmiðlafrelsinu.

Faðir Protasevich óttast að sonur hans verði pyntaður.

„Þetta á ekki að vera að gerast í hjarta Evrópu á 21. öldinni,“ sagði hann meðal annars.

Hvíta-Rússland er eina Evrópuríkið þar sem dauðarefsingin er ennþá í gildi og samkvæmt vitnum sagðist Protasevich óttast að vera dæmdur til dauða þegar hann var handtekinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.