Erlent

Þúsundir flýja eld­gos í Austur-Kongó

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Himininn yfir Goma er rauður vegna eldgossins.
Himininn yfir Goma er rauður vegna eldgossins. EPA-EFE/HUGH KINSELLA CUNNINGHAM

Þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín í Austur-Kongó eftir að eldgos byrjaði í Nyiragongo fjalli. Gosið er mjög kraftmikið og lýstu hrauntungurnar upp himininn fyrir ofan bæinn Goma í nótt.

Mikið hraun rennur úr fjallinu og rann það alveg að flugvellinum í borginni, þar sem meira en tvær milljónir búa, í nótt. Fjallið er staðsett um tíu kílómetrum utan Goma.

Þúsundir hafa flúið borgina, margir með sínar helstu eigur á bakinu.EPA-EFE/HUGH KINSELLA CUNNINGHAM

Síðast þegar fjallið gaust árið 2002 fórust 250 og meira en 120 þúsund misstu heimili sín.

Snemma í morgun höfðu þúsundir yfirgefið heimili sín og stefna margir nú í átt að landamærunum að Rúanda. Aðrir héldu upp í fjöllin vestur af borginni.

Yfirvöld gáfu ekki út neyðartilkynningu fyrr en nokkrum klukkutímum eftir að gosið hófst en margir höfðu þá þegar flúið heimili sín, margir hverjir með búslóðina á bakinu.

Að sögn yfirvalda í Rúanda hafa nú um þrjú þúsund íbúar Goma farið yfir landamærin. Landið mun bregðast við neyð fólksins og skjóta yfir það þaki í skólum og bænastöðum.

Stór hluti Goma varð rafmagnslaus og vegur sem liggur frá Goma til borgarinnar Beni varð hrauninu fljótt að bráð. Þá hafa jarðskjálftar mælst á svæðinu í nótt.

Fjallið gaus síðast árið 2002 en þá fórust 250.EPA-EFE/HUGH KINSELLA CUNNINGHAM


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×