Erlent

Komur barna á sjúkrahús vegna gleyptra segla fimmfaldast

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Segulleikföngin líta sakleysislega út en geta valdið miklum skaða í meltingarveginum og kviðarholinu.
Segulleikföngin líta sakleysislega út en geta valdið miklum skaða í meltingarveginum og kviðarholinu.

Á síðustu fimm árum hefur þeim tilvikum fjölgað fimmfalt í Lundúnum þar sem leitað er með börn á sjúkrahús eftir að þau hafa gleypt segla. Þá hefur komum á sjúkrahús vegna aðskotahluta í meltingarfærum fjölgað almennt.

Í flestum tilvikum fara gleyptir aðskotahlutir í gegnum meltingarveginn og enda í salerninu án vandkvæða en þegar um er að ræða segla, tvo eða fleiri, geta þeir valdið alls kyns óskunda í kviðarholinu.

Segla má nú finna víða, meðal annars í fjölda leikfanga.

„Við sjáum afar sjaldan tvo segla; þeir eru yfirleitt fimm eða sex saman... væntanlega grípa börnin marga í einu. Ég held að mesti fjöldinn sem við höfum séð séu yfir tuttugu saman,“ segir Hemanshoo Thakkar, barnaskurðlæknir við Evelina London Children's Hospital.

Thakkar nefnir sérstaklega eitt leikfang, sem er í raun ekkert nema samansafn smárra kúlusegla sem hægt er að setja saman á ýmsan máta. Hann segir hluta vandans óábyrga markaðssetningu, þar sem leikföngin eru auglýst án viðvarana.

Frá janúar 2016 til desember 2020 fjölgaði tilvikum þar sem börn komu á sjúkrahús eftir að hafa gleypt aðskotahlut um 56 prósent. Á þessu tímabili var 251 barn lagt inn á barnaskurðdeildir í suðausturhluta Lundúna. 

Í 93 tilvikum var um að ræða smápeninga, 52 segla og 42 litlar rafhlöður. Árið 2016 voru fjögur börn lögð inn eftir að hafa gleypt segla en árið 2020 hafði þeim fjölgað í 25.

Á þessum fimm árum þurfti að aðeins einu sinni að fjarlægja rafhlöðu með skurðaðgerð en seglarnir kröfðust aðgerða í 22 tilvikum af 52. Hjá sjúklingunum 251 komu upp vandkvæði hjá tíu og í átta tilvikum var um segla að ræða.

Guardian greindi frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.