Enski boltinn

Vill að sex stig verði dregin af United fyrir að stilla upp B-liði gegn Leicester

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margir af þeim leikmönnum sem voru í byrjunarliði Manchester United gegn Leicester City hafa lítið spilað í vetur.
Margir af þeim leikmönnum sem voru í byrjunarliði Manchester United gegn Leicester City hafa lítið spilað í vetur. getty/Dave Thompson

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, sýndi vanvirðingu með liðsvali sínu gegn Leicester City í gær og draga ætti sex stig af liðinu fyrir það. Þetta segir Trevor Sinclair, fyrrverandi leikmaður West Ham United, Manchester City og fleiri liða.

Mikið álag er á United um þessar mundir og liðið leikur þrjá leiki í ensku úrvalsdeildinni á aðeins sex dögum. Solskjær gerði því tíu breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn gegn Leicester í gær.

United tapaði leiknum, 1-2, sem varð til þess að City varð Englandsmeistari. Sigurinn styrkti líka stöðu Leicester í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Sinclair var ekki par sáttur við liðsval Solskjærs í leiknum í gær og lagði til að sex stig yrðu dregin af United fyrir að stilla upp veiku liði.

„Án þess að sýna leikmönnunum sem spiluðu vanvirðingu gerðu þeir tíu breytingar á byrjunarliðinu og þetta var B-liðið. Mér finnst þetta vera vanvirðing og þetta hefur áhrif á baráttuna um Meistaradeildarsæti,“ sagði Sinclair á talkSPORT eftir leikinn. 

Hann bætti við að úrslit leiksins hefðu mikil áhrif Chelsea, Liverpool, West Ham og Tottenham sem freista þess að komast í Meistaradeildina.

„Mér finnst að það ætti að refsa United. Þrjú stig eru ekki nóg því það hefur engin áhrif. Mér finnst í ljósi þess hvernig þeir stilltu upp liðinu að það ætti að draga sex stig af þeim.“

United mætir Liverpool á Old Trafford annað kvöld. United er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en Liverpool í því sjötta.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.