Íslenski boltinn

„Stubbur hefur staðið sig eins og hetja“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Grétarsson, þjálfari KA, hrósaði markverðinum Steinþóri Má Auðunssyni eftir sigurinn á KR.
Arnar Grétarsson, þjálfari KA, hrósaði markverðinum Steinþóri Má Auðunssyni eftir sigurinn á KR. vísir/hulda margrét

Það var skiljanlega létt yfir Arnari Grétarssyni, þjálfara KA, eftir sigurinn á KR á Meistaravöllum í kvöld. KA-menn léku vel og unnu með þremur mörkum gegn einu.

„Ég var virkilega ánægður með hvernig við byrjuðum leikinn. Fyrsta hálftímann réðum við ferðinni, skoruðum tvö góð mörk og hefðum getað skorað fleiri. Svo fengum við á okkur mark rétt fyrir hálfleik sem er alltaf slæmt,“ sagði Arnar við íþróttadeild eftir leikinn.

„Við vissum að KR-ingar myndu koma ákveðnir til leiks í seinni hálfleiks og mér fannst við falla full aftarlega. Þeir réðu ferðinni án þess að skapa sér mikið. Svo fengum við algjört dauðafæri þegar Hallgrímur tók hann með hælnum. Ég veit ekki alveg hvað hann var að gera. En sem betur fer kláraði hann fyrir okkur á skemmtilegan hátt. Það gerði hlutina léttara síðustu mínúturnar. KR var auðvitað mun meira með boltann í seinni hálfleik og áttu fullt af fyrirgjöfum. En ég er mjög ánægður með Stubb. Hann er að standa sig eins og hetja,“ sagði Arnar og vísaði til markvarðarins Steinþórs Más Auðunssonar sem hefur staðið milli stanganna í fyrstu tveimur leikjum KA á tímabilinu.

Nokkrir KA-menn meiddust í leiknum og Rodrigo Mateo Gomes og Jonathan Hendrickx þurftu báðir að fara af velli.

„Rodri fékk höfuðhögg, það opnaðist ár og honum varð flökurt í hálfleik svo við tókum hann út af. Jonathan fékk svo högg á fótinn,“ sagði Arnar og bætti við Hendrickx yrði væntanlega ekki með gegn Leikni á miðvikudaginn.

„Fyrir mót töluðum við um að við værum með stóran hóp og þyrftum kannski að lána menn en það hefur heldur betur snúist upp í andhverfu sína. Við þurfum frekar að ná í leikmenn,“ sagði Arnar að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×