Erlent

Japanir sitja uppi með tugmilljónir bóluefnaskammta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Heilbrigðisstarfsmaður bólusettur.
Heilbrigðisstarfsmaður bólusettur. epa/Yoshikazu Tsuno

Útlit er fyrir að innan tíðar muni Japan sitja uppi með tugmilljónir ónotaðra bóluefnaskammta, þar sem verulegir hnökrar eru á framkvæmd bólusetninga í landinu.

Japan hefur nú þegar flutt inn 28 milljón skammta af bóluefninu frá Pfizer en aðeins notað um 15 prósent. Afgangurinn bíður í frosti. Þá mun enn bætast í birgðirnar á næstunni þar sem yfirvöld hyggjast taka ákvörðun um notkun efnanna frá Moderna og AstraZeneca 20. maí nk.

Fyrsti skammturinn frá Moderna hefur raunar þegar borist til Japan og þá er von á 30 milljón skömmtum frá AstraZeneca.

Japan er það Asíuríki sem hefur tryggt sér flesta bóluefnaskammta, enda stendur enn til að Ólympíuleikarnir fari fram í Tókýó í sumar. Hins vegar hafa aðeins 2,2 prósent landsmanna verið bólusett.

Þetta þýðir að ef stjórnvöld vilja ná markmiði sínu um að ljúka bólusetningum aldraðra mánaðamótin júní/júlí, þarf að bólusetja 800 þúsund manns á dag. Það eru tvöfalt fleiri en hafa verið bólusettir daglega hingað til.

Japanir hófu ekki bólusetningarátak sitt fyrr en í febrúar en yfirvöld segja hægaganginn fyrst og fremst mega rekja til skorts á mannafla. Um tvær milljónir heilbrigðisstarfsmanna hafa enn ekki fengið fyrri skammt og sumir sérfræðingar segja marga mánuði í að allur almenningur verði bólusettur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×