Innlent

Þverárhlíð fær fyrsta slitlagið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Í fyrrasumar var slitlag lagt á sex kílómetra kafla gamla hringvegarins milli Hvanneyrar og Hvítárbrúar, meðfram Hvítárvöllum. 24 kílómetrar malbiks eru að bætast við í Borgarfjarðarhéraði á þessu og næsta ári.
Í fyrrasumar var slitlag lagt á sex kílómetra kafla gamla hringvegarins milli Hvanneyrar og Hvítárbrúar, meðfram Hvítárvöllum. 24 kílómetrar malbiks eru að bætast við í Borgarfjarðarhéraði á þessu og næsta ári. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson

Vegagerðin hefur boðið út endurbyggingu og lagningu bundins slitlags á 8,5 kílómetra kafla um Þverárhlíð í Borgarfirði. Þetta verður í fyrsta sinn sem vegur í sveitinni er lagður bundnu slitlagi, að sögn Valgeirs Ingólfssonar, yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni í Borgarnesi.

Kaflinn sem á að malbika er austanmegin í Þverárhlíð og teygir sig raunar niður í Hvítársíðu. Hann nær frá gatnamótum Borgarfjarðarbrautar ofan Kljáfoss, framhjá kirkjustaðnum Norðtungu og að Högnastöðum.

Tilboðsfrestur rennur út þann 18. maí næstkomandi og má gera ráð fyrir að framkvæmdir verði komnar á fullt fyrri hluta sumars. Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 15. júlí 2022.

Fleiri vegarbætur eru framundan í Borgarfjarðarhéraði. Vegagerðin hefur einnig boðið út lagningu bundins slitlags á Melasveitarveg. Þar á að malbika 4,9 kílómetra kafla milli Bakka og svínabúsins á Melum. Tilboðsfrestur er sömuleiðis til 18. maí og á vegurinn að vera tilbúinn eigi síðar en 30. júní 2022.

Ofan Húsafells er Borgarverk ehf. að leggja slitlag á 2,8 kílómetra kafla milli Hvítár og Kalmanstungu og á Mýrum vestan Borgarness er Þróttur ehf. að leggja slitlag á 7,5 kílómetra kafla Álftaneshreppsvegar, milli gatnamóta Snæfellsnesvegar við Langárfoss og Leirulækjar. Báðir kaflarnir eiga að klárast fyrir 1. ágúst í sumar.

Með þessum fjórum verkefnum bætast alls um 24 kílómetrar malbiks á sveitavegi í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu á þessu og næsta ári.


Tengdar fréttir

Slitlag lagt á gamla hringveginn milli Hvanneyrar og Hvítárbrúar

Brú, sem margir telja þá fegurstu á Íslandi, gamla Hvítárbrúin í Borgarfirði, hefur núna loksins verið tengd malbiki og um leið losna vegfarendur við holóttan sveitaveg sem í gamla daga hafði þann sess að vera hluti hringvegarins.

Stálbrú frá 1899 fær andlitslyftingu

"Það kemur eitt og eitt svona verkefni þar sem verið er að halda við minjum áður en þær fara í vaskinn,“ segir Guðmundur Sigurðsson brúarsmiður, sem nú annast endursmíði nítjándu aldar stálbrúar í Borgarfirði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.