Innlent

Skiptir máli að ráða fólk á grundvelli hæfni fremur en kunningjaskapar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þingmaður Pírata óskaði eftir svörum um ráðningar aðstoðarmanna dómara.
Þingmaður Pírata óskaði eftir svörum um ráðningar aðstoðarmanna dómara. vísir/Vilhelm

Störf aðstoðarmanna dómara í Hæstarétti hafa ekki verið auglýst frá því að lög um dómstóla tóku gildi í ársbyrjun 2018. Störf aðstoðarmanna í Landsrétti voru einungis auglýst við stofnun réttarins.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, lagði fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra þar sem óskað var eftir svörum um hversu oft hafi verið ráðið í störf aðstoðarmanna dómara í héraði, Landsrétti og Hæstarétti frá því að núgildandi lög um dómstóla tóku gildi.

Samkvæmt svarinu hafa þrír aðstoðarmenn dómara við Hæstarétt verið ráðnir frá gildistöku; einn árið 2019 og tveir 2020. Þar segir að störfin hafi ekki verið auglýst þar sem aðstoðarmennirnir voru til að byrja með ráðnir tímabundið. 

Í svarinu segir jafnframt að fjórtán einstaklingar hafi verið ráðnir sem aðstoðarmenn dómara við Landsrétt á tímabilinu. Átta stöður voru auglýstar við stofnun Landsréttar en síðan hafa sex verið ráðnir án auglýsingar.

Allir aðstoðarmenn við héraðsdóm Reykjavíkur hafa verið ráðnir að undangenginni auglýsingu.

Samkvæmt dómstólalögum er ekki skylt að auglýsa stöður aðstoðarmanna dómara við Landsrétt og Hæstarétt en í greinargerð með frumvarpi laganna segir þó að störfin beri að meginstefnu að auglýsa.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.vísir/Vilhelm

Bagaleg staða

„Ég myndi vilja að þessar stöður væru almennt auglýstar,“ segir Andrés Ingi. „Þetta eru mikilvæg störf og það skiptir máli að ráða fólk á grundvelli hæfni fremur en á grundvelli kunningjaskapar líkt og þegar gert er án auglýsingar.“

Hann bendir á að það sé meginregla að auglýsa beri ábyrgðastöður hjá dómstólum.

„Það er bagalegt að enginn aðstoðarmaður hæstaréttardómara sé ráðinn eftir auglýsingu og að það hafi ekki verið gert í Landsrétti nema þegar dómstóllinn var settur á laggirnir,“ segir Andrés. „Þetta lítur ekkert alltof vel út og það er spurning hvernig best er að bera sig að í því laga þetta.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.