Íslenski boltinn

„Skrifaði fótboltasögu Garðabæjar frá A til Ö“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leiðir Rúnars Páls Sigmundssonar og Stjörnunnar skildi í gær.
Leiðir Rúnars Páls Sigmundssonar og Stjörnunnar skildi í gær. vísir/daníel

Maðurinn sem gerði Stjörnuna að Íslandsmeisturum án þess að tapa leik, kom liðinu í gegnum þrjú einvígi í Evrópukeppni á sama tímabilinu, gerði það að bikarmeisturum og lenti aldrei með það neðar en í 4. sæti er hættur hjá félaginu.

Í gær var tilkynnt að Rúnar Páll Sigmundsson hefði sagt upp störfum hjá Stjörnunni, á 47 ára afmælisdaginn sinn. Hann hafði stýrt Stjörnunni frá 2013, á mesta blómaskeiði í sögu félagsins.

Tíðindi gærdagsins komu flestum í opna skjöldu og Garðbæingum var brugðið. Meðal þeirra var Þorkell Máni Pétursson, einn sérfræðinga Stöðvar 2 Sports um Pepsi Max-deildina og stuðningsmaður Stjörnunnar.

„Þetta kom gríðarlega á óvart. Þetta er eiginlega sjokkerandi. Maður er eiginlega bara enn að meðtaka þetta,“ sagði Máni í samtali við Vísi.

„Maður vissi að sá tímapunktur að Rúnar Páll myndi kveðja kæmi en maður hélt að það yrði ekki svona. Þetta er maðurinn sem hefur skrifað fótboltasögu Garðabæjar frá A til Ö. Maður getur ekki annað sagt en maður sé smá eyðilagður yfir þessu.“

Áður en Rúnar Páll tók við þekkti karlalið Stjörnunnar velgengni bara af afspurn. Grunnurinn hafði vissulega verið lagður, það hafði tvisvar sinnum komist í bikarúrslit og náði Evrópusæti 2013 undir stjórn Loga Ólafssonar, en Rúnar Páll tók næsta skref með félagið.

Draumatímabilið 2014

Hann gerði Stjörnuna að Íslandsmeisturum 2014, á fyrsta tímabili sínu við stjórnvölinn. Laugardeginum 4. október 2014 gleymir enginn stuðningsmaður Stjörnunnar, þegar liðið varð Íslandsmeistari eftir 1-2 sigur á FH í eftirminnilegum úrslitaleik í Kaplakrika. Ólafur Karl Finsen skoraði sigurmark Stjörnunnar úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Stjarnan átti svo Evrópuævintýri sumarið 2014, vann þrjú einvígi í forkeppni Evrópudeildarinnar, eitthvað sem ekkert annað íslenskt lið hefur afrekað. Í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar mætti Stjarnan ítalska stórveldinu Inter, annars vegar á Laugardalsvelli og hins vegar á San Siro. Báðir leikirnir töpuðust stórt.

Stjörnumenn fagna bikarmeistaratitlinum 2018.vísir/daníel

Næstbesta tímabilið undir stjórn Rúnars Páls var 2018 þegar Stjarnan varð bikarmeistari eftir sigur á Breiðabliki í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik. Þá áttu Stjörnumenn einnig góða möguleika á Íslandsmeistaratitlinum en köstuðu honum frá sér í síðustu þremur umferðunum eftir bikarúrslitaleikinn.

„Fyrsti Íslandsmeistaratitilinn, fyrsta bikarmeistaratitilinn, besti árangurinn í Evrópukeppni. Öll þessi saga var skrifuð af Rúnari Páli. Stjarnan þekkti ekki velgengni fyrr en Rúnar Páll tók við,“ sagði Máni.

Tók hverjum ósigri persónulega

Hann segir að lykilinn að góðum árangri Stjörnunnar undir stjórn Rúnars Páls sé hversu annt honum er um félagið sem hann ólst upp hjá.

„Galdurinn var að hann tók hverjum ósigri félagsins persónulega. Hann tapaði ekki bara leik sem þjálfari, heldur einnig sem stuðningsmaður félagsins. Það er vitað að ef Rúnar Páll hefði ekki verið á hliðarlínunni hefði hann verið uppi í stúku,“ sagði Máni.

Óvænt kveðjustund

Sem fyrr sagði hafði Rúnar Páll stýrt Stjörnunni í átta ár en enginn þjálfari í efstu deild hafði verið lengur með sitt lið en hann. Máni sá þessa kveðjustund ekki fyrir.

„Ég vissi að Rúnar Páll myndi einhvern tímann hætta hjá Stjörnunni því þetta er ekkert grínstarf. Það fylgir þessu álag og annað. En ég bjóst ekki við að hann myndi hætta svona,“ sagði Máni.

Rúnar Páll stýrði Stjörnunni í síðasta sinn þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Leikni R. á laugardaginn. Næsti leikur Stjörnunnar, og sá fyrsti í átta ár þar sem Rúnar Páll er ekki við stjórnvölinn, er gegn Keflavík á Nettóvellinum á sunnudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.