Erlent

Bill og Melinda Gates skilja

Snorri Másson skrifar
Hjónin Bill og Melinda Gates kynntust hjá Microsoft á sínum tíma, þar sem Melinda var markaðsstjóri. Þau eignuðust þrjú börn en nú skilja leiðir.
Hjónin Bill og Melinda Gates kynntust hjá Microsoft á sínum tíma, þar sem Melinda var markaðsstjóri. Þau eignuðust þrjú börn en nú skilja leiðir. Getty/Global Citizen

Auðkýfingurinn Bill Gates og eiginkona hans Melinda eru að skilja eftir 27 ára hjónaband.

Bill Gates tilkynnti um þetta á Twitter rétt í þessu.

„Eftir að hafa íhugað málið vandlega og unnið mikið í sambandinu, höfum við ákveðið að binda enda á hjónaband okkar. Síðustu 27 ár höfum við alið upp okkar ótrúlegu börn og byggt upp góðgerðarsjóð sem starfar um allan heim að því að gera fólki kleift að lifa heilbrigðu og árangursríku lífi.

Við höfum enn sameiginlega trú á því verkefni og munum halda áfram vinnu okkar hjá sjóðnum, en við teljum ekki lengur að við getum haldið áfram að vaxa sem par í næsta kafla lífs okkar.

Við biðjum um pláss og næði fyrir fjölskyldu okkar núna þegar við stígum fyrstu skrefin í nýja lífinu,“ segir í tilkynningu Gates. 

Hjónin eru bæði enn stjórnarmenn í Bill & Melinda Gates Foundation. Bill steig til hliðar úr stjórn Microsoft í fyrra og var það sagt hafa verið vegna þess að hann vildi einbeita sér að málefnum kórónuveirufaraldursins. Þróun bóluefna hefur verið honum mikið hugðarefni síðustu ár.

Melinda og Bill kynntust hjá Microsoft, þar sem hún starfaði sem markaðsstjóri innan fyrirtækisins. Bill stofnaði tæknifyrirtækið 1975 og er nú metinn á 130 milljarða Bandaríkjadala.

Fjárhagsleg útfærsla skilnaðarins liggur enn ekki fyrir. Gates á 1,37% hlut í Microsoft, sem er metinn á meira en 26 milljarða dala. Á sínum tíma tóku hjónin þátt í verkefninu Giving Pledge, sem fól í sér að þau gáfu frá sér meira en helming auðæfa sinna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×