Erlent

Tvær mögulegar „örbylgjuárásir“ til skoðunar í Hvíta húsinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Deildar meiningar eru uppi um hvort rétt sé að tala um örbylgju „vopn“, jafnvel þótt hernaðaryfirvöld gruni að veikindin megi rekja til aðgerða Rússa.
Deildar meiningar eru uppi um hvort rétt sé að tala um örbylgju „vopn“, jafnvel þótt hernaðaryfirvöld gruni að veikindin megi rekja til aðgerða Rússa. epa/Stefani Reynolds

Talsmenn Hvíta hússins segja tvö „óútskýrð heilbrigðistilvik“ til rannsóknar en greint hefur verið frá því að tveir embættismenn í Washinton hafi skyndilega upplifað einkenni á borð við þau sem þjáð hafa einstaklinga sem unnu í sendiráðinu á Kúbu.

Kvartanir sendiráðsstarfsmannanna voru lengi hunsaðar, þar til rannsóknir leiddu í ljós að umræddir starfsmenn höfðu hlotið vægan heilaskaða. Vísindaráð Bandaríkjanna telur örbylgjur orsök veikindanna.

Svipuð veikindi hafa verið tilkynnt af Bandaríkjamönnum í Kína og hermönnum í Sýrlandi. Leyniþjónustan CIA og hernaðaryfirvöld í Pentagon rannsaka málið.

Samkvæmt CNN ná rannsóknir þeirra til tveggja tilvika sem voru tilkynnt í Washington D.C árin 2019 og 2020. Annað átti sér stað við Hvíta húsið í nóvember en þá varð einstaklingur sem situr í þjóðaröryggisráðinu skyndilega veikur.

Hitt tilvikið átti sér stað í úthverfi í Arlington. Þá var starfsmaður Hvíta hússins á göngu með hundinn sinn þegar maður steig út úr sendibíl og gekk framhjá henni. Á sama tíma fékk hundurinn flog og strax í kjölfarið fann hún fyrir einkennum; hátíðnisuði í eyrunum, miklum höfuðverk og náladofa í hægri hluta andlitsins.

Talsmaður Hvíta hússins sagði heilsu og heilbrigði opinberra starfsmanna forgangsmál og að málið væri til rannsóknar, bæði innanhúss og hjá öðrum stofnunum.

Einkenni svokallaðs „Havana-heilkennis“ eru hátíðnisuð í eyra og svima, ógleði og höfuðverk í kjölfarið. Sumir þjást af minnistapi, sem getur orðið viðvarandi.

Umfjöllun Guardian.

Umfjöllun Politico.


Tengdar fréttir

Örbylgjur orsaka veikindin

Dularfullur sjúkdómur sem plagað hefur sendiráðsstarfsmenn Bandaríkjanna á Kúbu er að öllum líkindum orsakaður af örbylgjum sem beint var að sendiráðinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.