Erlent

Mikill meirihluti þingmanna samþykkir fríverslunarsamninginn við Breta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðskilnaðurinn hefur ýmsar flækjur í för með sér. Til dæmis er Norður-Írland ennþá hluti af evrópska markaðnum og því er haft sérstakt eftirlit með vörum sem koma þangað frá öðrum svæðum Bretlands.
Aðskilnaðurinn hefur ýmsar flækjur í för með sér. Til dæmis er Norður-Írland ennþá hluti af evrópska markaðnum og því er haft sérstakt eftirlit með vörum sem koma þangað frá öðrum svæðum Bretlands. epa/Javier Etxezarreta

Evrópuþingið hefur staðfest nýjan fríverslunarsamning milli Evrópusambandsins og Bretlands í kjölfar Brexit. Samningurinn hefur verið í gildi frá því í janúar en var samþykktur í morgun með 660 atkvæðum.

Fimm greiddu atkvæði á móti og 32 sátu hjá.

Frost lávarður, aðalsamningamaður Breta, sagði niðurstöðuna veita fullvissu og gera aðilum kleift að beina sjónum að framtíðinni. Forsætisráðherrann Boris Johnson kallaði atkvæðagreiðsluna lokaskrefið á langri vegferð.

Johnson sagði samninginn (TCA) koma á stöðugleika í samskiptum Breta og ESB, sem yrðu áfram viðskiptafélagar, nánir samherjar og sjálfstæðir jafningjar.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði á Twitter að samningurinn myndaði grundvöll trausts og náins sambands ESB og Breta. Þá væri mikilvægt að honum yrði fylgt eftir í hvívetna.

Guy Verhofstadt, sem fór með Brexit fyrir hönd Evrópuþingsins, sagði samninginn hins vegar bágan fyrir báða aðila en betra en ekkert. Þá sagði samningamaður ESB, Michel Barnier: „Þetta er skilnaður. Brexit er viðvörun. Hann eru mistök af hálfu Evrópusambandsins og við verðum að draga lærdóm af þeim.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×