Erlent

„Al­gjört kerfis­hrun“: Kórónu­veirufar­aldurinn hömlu­laus á Ind­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bálstofur hafa gripið til þess ráðs að brenna fjölda líka á opnum bálköstum.
Bálstofur hafa gripið til þess ráðs að brenna fjölda líka á opnum bálköstum. epa/Divyakant Solanki

Hæstiréttur Indlands hefur kallað stöðu kórónuveirufaraldursins í landinu „neyðarástand“. En ástandið er verra, segir blaðamaður BBC. „Þetta er algjört kerfishrun,“ hefur hann eftir helsta veirufræðingi Indlands.

332.730 greindust með SARS-CoV-2 á Indlandi síðasta sólahringinn og 2.263 létu lífið. Sjúkrahús eru yfirfull og súrefnisbirgðir af skornum skammti. Á hverjum degi taka heilbrigðisstarfsmenn við símtölum frá einstaklingum sem grátbiðja um aðstoð til handa veikum fjölskyldumeðlimum en fá ekkert að gert.

„Allar símalínur eru uppteknar. Fólk hringir stöðugt í hjálparlínuna. Það er öngþveiti fyrir utan spítalann; þar standa sjúkrabifreiðar og sjúklingar um borð sem bíða eftir því að komast að. En vandinn er að það er ekkert pláss,“ segir Atul Gogia, ráðgjafi á Sir Ganga Ram-sjúkrahúsinu í Delí.

Leitað er allra leiða til að útskrifa sjúklinga um leið og þeir eru „stöðugir“.

Soutik Biswas, blaðamaður sem starfar fyrir BBC, segist vakna á hverjum morgni við örvæntingafullar símhringingar. Fólk sé á höttunum eftir sjúkraplássum, lyfjum, súrefni og jafnvel blóðvökva fyrir ættingja og vini.

Fólk óttist að veiran sé „í dyragættinni“ og að heilu skýjakljúfunum hafi verið lokað vegna fjölda sýkinga. Dagar og nætur einkennist af ráðaleysi, kvíða og ótta. „Vondu fréttirnar eru óstöðvandi,“ segir hann.

Heilbrigðisstarfsmenn hafa grátbeðið stjórnvöld um að grípa til aðgerða en staðan virðist versna dag frá degi.epa/Divyakant Solanki

Súrefnisbirgðir eru næstum á þrotum í ríkjum á borð við Maharashtra, sem hefur orðið hvað verst úti, Gujarat, Uttar Pradesh og Haryana. Herinn hefur verið kallaður til til að aðstoða við dreifingu súrefnis um landið.

Ástandið má meðal annars rekja til máttlausra sóttvarnaaðgerða og sinnuleysis. Milljónir tóku til að mynda þátt í hátíðarhöldum í tilefni Kumbh Mela, sem náði hámarki þegar gríðarlegur fjöldi óð út í Ganges-á.

Auk nýs inversks afbrigðis af SARS-CoV-2, sem virðist hafa tvær stökkbreytingar, er hið svokallaða breska afbrigði útbreitt í Punjab, Maharashtra og Delí.

„Okkur eru að berast símtöl frá sjúklingum, náskomnum, nágrönnum; þeir biðla til okkar um að taka á móti ástvinum sínum. En því miður er ástandið þannig að þrátt fyrir að við séum að gera okkar besta þá er fjöldi sjúklinga sem okkur tekst ekki að aðstoða,“ Saswati Sinha, sérfræðingur í bráðalækninum í borginin Kalkútta.

Umfjöllun BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×