Enski boltinn

Eig­andi Spoti­fy til í að skoða kaup á Arsenal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Daniel Ek hefur áhuga á að kaupa Arsenal.
Daniel Ek hefur áhuga á að kaupa Arsenal. Drew Angerer/Getty Images

Eigandi og stofnandi tónlistarveitunnar Spotify er tilbúinn í að fjárfesta í enska knattspyrnufélaginu Arsenal.

Segja má að Stan Kroenke, eigandi Arsenal, sé ekki vinsælasti maður Lundúna um þessar mundir. Fjöldinn allur af stuðningsmönnum liðsins mótmælti fyrir utan Emirates-völlinn er Arsenal tapaði 0-1 gegn Everton í gærkvöld.

Stuðningsfólk Arsenal, líkt og hinna liðanna sem ákváðu að stofna „ofurdeild Evrópu“ er vægast sagt ósátt með eigenda sinn og vill hann burt. Alls óvíst er hvort Kroenke hafi einhvern áhuga á að selja en ef svo er þá er hinn 38 ára gamli Daniel Ek frá Svíþjóð tilbúinn að fjárfesta í félaginu.

Daniel er stofnandi og eigandi tónlistarveitunnar Spotify. Hann sagði á Twitter-síðu sinni í gær að hann hefði stutt Arsenal allt sitt líf og ef Kroenke væri tilbúinn til að selja þá væri hann tilbúinn að „henda hattinum sínum í hringinn.“

Daniel Ek er metinn á 4.5 milljarða Bandaríkjadala og ætti eflaust að geta fjármagnað kaup á Arsenal ef þess þarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×