Henry bað stuðningsmenn félagsins, auk leikmanna og þjálfaraliðs, afsökunar á aðkomu félagsins að Ofurdeildinni á miðvikudag. Klopp sagði blaðamanni í dag að sú afsökunarbeiðni hafi dugað sér.
„Mér finnst ekki vera þörf á því. Það var minnst á mig í afsökunarbeiðninni, sem og liðið. Það var nógu persónulegt fyrir mig.“ sagði Klopp aðspurður um afsökunarbeiðni frá stjórnendum.
„Ég hef þekkt eigendurna í sex ár. Það hafa ef til vill verið augnablik þar sem þeir taka ranga ákvörðun, sem var klárlega staðan núna. En það breytir engu fyrir mig, mér þykir betra að glíma við vandamál með fólki sem ég þekki.“ bætti Klopp við.
Stjórnarmenn Liverpool hafa sætt mikilli gagnrýni fyrir ákvörðun sína og hefur í því samhengi verið talað um brostið samband við stuðningsmenn félagsins. Stuðningsmannafélagið Spirit of Shankly gaf til að mynda lítið fyrir afsökunarbeiðni eigandans.
Klopp vonast þó til að hægt sé að brúa bilið þar á milli.
„Ég vona innilega að sambandið milli okkar og stuðningsmannana geti styrkst enn frekar, og að við dveljum ekki við mistök fortíðarinnar,“ sagði Klopp og bætti við:
„Þeir eru góðar manneskjur, ég þekki eigendurna, þeir eru ekki fullkomnir, rétt eins og ég er ekki fullkominn, en þeir eru ekki slæmt fólk.“
Fyrst að Ofurdeildin verður ekki að veruleika í haust, berst Liverpool fyrir Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni. Eftir 1-1 jafntefli við Leeds United á mánudagskvöld situr liðið í sjöunda sæti deildarinnar með 53 stig, líkt og Tottenham Hotspur sem er sæti ofar. Chelsea og West Ham United eru með tveimur stigum meira í fjórða og fimmta sæti.
Liverpool mætir Newcastle United á Anfield klukkan 11:30 á morgun.