Enski boltinn

Sarri orðaður við stjóra­stöðuna hjá Totten­ham

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Verður Sarri á hliðarlínunni á Tottenham Hotspur-vellinum á næstu leiktíð?
Verður Sarri á hliðarlínunni á Tottenham Hotspur-vellinum á næstu leiktíð? EPA-EFE/ROBERTO BREGANI

Samkvæmt enska götublaðinu Daily Mail hefur Tottenham Hotspur heyrt í Maurizio Sarri, fyrrum þjálfara Chelsea, Juventus og Napoli. Gæti hann tekið við Lundúnaliðinu í sumar.

Tottenham rak José Mourinho í fyrradag og tilkynnti í gær að hinn 29 ára gamli Ryan Mason myndi stýra liðinu út tímabilið. Forráðamenn Lundúnaliðsins hafa nú þegar hafið leit að eftirmanni Mourinho og þó Mason fái traustið út þetta tímabil þá ætlar Tottenahm sér að ráða reynslumeiri þjálfara fyrir næstu leiktíð.

Nafnið sem virðist hafa komið upp úr hattinum er Maurizio Sarri. Sá gerði garðinn frægan hjá Napoli áður en hann tók við Chelsea. Hann var þar aðeins í eina leiktíð, liðið endaði í 3. sæti úrvalsdeildarinnar, vann Evrópudeildina en tapaði í úrslitum deildarbikarsins.

Þaðan fór hann til Juventus og vann Serie A á síðustu leiktíð. Er hann elsti þjálfari í sögu ítölsku úrvalsdeildarinnar til að hampa titlinum.

Nú virðist sem hinn 62 ára gamli Sarri gæti verið á leið til Lundúna á nýjan leik. Tottenham er sem stendur í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og stefnir allt í að liðið komist ekki í Evrópukeppni. 

Það er því verk að vinna á Tottenham Hotspur-vellinum á næstu leiktíð og spurning hvort Sarri fái það verkefni að koma Tottenham á sama stall og þegar gekk hvað best undir Mauricio Pochettino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×