Erlent

Telja um 150.000 hermenn við landamæri Úkraínu

Kjartan Kjartansson skrifar
Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, eftir fund utanríkisráðherranna í dag.
Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, eftir fund utanríkisráðherranna í dag. AP/Francois Walschaerts

Rússar hafa safnað saman um 150.000 hermönnum við landamæri Úkraínu og á Krímskaga, að sögn utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Hann telur hættuna á frekari stigmögnun átaka í Austur-Úkraínu augljósa.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, hitti utanríkisráðherra Evrópusambandsins á fundi í dag. Að honum loknum sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, að liðsafli Rússa nærri Úkraínu næmi nú á annað hundrað þúsund hermönnum. Sagði hann ekki hvaðan sú tala væri fengin, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Þetta eru mestu liðsflutningar rússneska hersins við úkraínsku landamærin fyrr og síðar. Það er ljóst að það er áhyggjuefni þegar margir hermenn eru sendir af stað. Neistarnir geta flogið hingað og þangað,“ sagði Borrell sem hvatti Rússa til að draga lið sitt til baka.

Spenna á milli Rússa og Úkraínumanna hefur farið vaxandi undanfarið eftir að stjórnvöld í Kreml hófu liðssöfnun nærri landamærunum fyrr í þessum mánuði. Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 og hafa síðan stutt við bakið á vopnuðum uppreisnarmönnum sem eru þeim hliðhollir í austanverðri Úkraínu.

Borrell sagði þó engar frekari refsiaðgerðir gegn Rússum fyrirhugaðar að svo stöddu. Kuleba hvatti Evrópusambandið til þess eftir fundinn í dag.


Tengdar fréttir

Biden og Pútín ræddu um Úkraínu í símtali

Hernaðaruppbygging Rússa við landamæri Úkraínu var á meðal þess sem bar á góma í símtali Joes Biden Bandaríkjaforseta og Vladímírs Pútín Rússlandsforseta í dag. Biden hvatti Pútín til að draga úr spennunni við nágrannaríkið en lagði jafnframt til að þeir hittust til fundar á næstu mánuðum.

Spennan magnast áfram í Úkraínu

Rússar segja Bandaríkjamönnum hollast að halda sig vel frá Krímskaga og segja að siglingar herskipa í Svartahafi sé ögrun gagnvart Rússlandi. Þetta hafa rússneskir miðlar eftir Sergei Ríabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×