Enski boltinn

Vieira orðaður við stjóra­stöðuna hjá Palace

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Patrick Vieira gæti stýrt Crystal Palace á næstu leiktíð.
Patrick Vieira gæti stýrt Crystal Palace á næstu leiktíð. vísir/getty

Fyrrum Arsenal goðsögnin Patrick Vieira gæti snúið aftur í ensku úrvalsdeildina í sumar. Þessi 44 ára gamli Frakki er orðaður við stjórastöðuna hjá Crystal Palace en liðið leitar nú að arftaka Roy Hodgson.

Hodgson er orðinn 73 ára gamall og gæti ákveðið að kalla þetta gott sem stjóri Palace í sumar. Hann hefur stýrt liðinu frá árinu 2017 og náð fínum árangri. Nú vilja stjórnarmenn liðsins samt fá inn yngri þjálfara og byggja til framtíðar.

Nokkur nöfn hafa borið á góma til þessa. Þar ber helst að nefna Sean Dyche, Eddie Hower, Frank Lampard og svo Vieira. Samkvæmt The Athletic er Vieira einnig á óskalistanum en er í dag án félags eftir að hafa sagt starfi sínu hjá Nice í Frakklandi lausu í desember síðastliðnum.

Vieira hefur einnig þjálfað New York City FC í Bandaríkjunum. Hann átti frábæran feril og lék til að mynda með Arsenal, Juventus, Inter Milan, Manchester City og franska landsliðinu.

Hann var orðaður við stjórastöðuna hjá Bournemouth fyrr á þessari leiktíð og þá var talið að Newcastle United hafi íhugað að ráða Vieira áður en félagið réð Steve Bruce. Nú er Palace nefnt til sögunnar og hver veit nema Vieira sjáist aftur á götum Lundúna er næsta tímabil hefst.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.