Erlent

Finnst hann þurfa að biðja alla bandaríska Indverja afsökunar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það var grínistinn Hari Kondabolu sem vakti athygli á vandkvæðunum við Apu í heimildarmyndinni „The Problem with Apu“ frá 2017.
Það var grínistinn Hari Kondabolu sem vakti athygli á vandkvæðunum við Apu í heimildarmyndinni „The Problem with Apu“ frá 2017. EPA

Leikarinn Hank Azaria segist finnast hann þurfa að biðja alla Bandaríkjamenn af indverskum uppruna afsökunar vegna persónunnar Apu Nahasapeemapetilon í sjónvarpsþáttunum um Simpson-fjölskylduna.

Azaria var rödd Apu í áraraðir og talsetti verslunareigandann með miklum inverskum hreim.

Leikarinn var gestur hlaðvarpsins Armchair Expert with Dax Shepard á dögunum og ræddi þar meðal annars um þá ákvörðun að hætta að ljá Apu rödd sína. Shepard hrósaði Azaria fyrir en leikarinn sagðist hafa verið partur af vandamálinu.

„Þetta snýst ekki um hamingjuóskir til mín fyrir mín viðbrögð, af því ég átti stóran þátt í því að skapa vandann,“ sagði Azaria. „Það er ekkert sem breytir því nema ef ég get bætt fyrir það með tímanum, sem ég er að reyna að gera.“

Azaria sagðist hafa rætt málið við samnemendur sonar síns af indverskum uppruna. Einn þeirra hefði aldrei séð Simpsons en þekkti engu að síður persónuna Apu. Það hefði verið hans tilfinning að Apu endurspeglaði hvernig Bandaríkjamenn sæju Indverja.

Nemandinn bað Azaria að koma því til skila að skáldaðar persónur á borð við Apu hefðu áhrif í raunheimum.

„Ég bið einlæglega afsökunar. Það er mikilvægt,“ sagði Azaria. „Ég biðst afsökunar fyrir minn þátt í að skapa þetta og eiga þátt að þessu. Hluta af mér líður eins og ég þurfi að fara til hverrar einustu inversku manneskju í þessu landi og biðja hana persónulega afsökunar. 

Stundum geri ég það,“ bætti hann við.

Framleiðiendur Simpsons ákváðu eftir nokkra umhugsun að halda Apu í þáttunum. Vegna umræðunnar um fordóma annars vegar og sýnileika hins vegar, hafa svartir leikarar verið fengnir til að taka við Azaria og Harry Shearer til að tala fyrir Carl Carlson og Hibbert lækni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×