Erlent

Spennan í kanslara­kapp­hlaupinu magnast

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Armin Laschet (t.v.) og Markus Söder (t.h.) funduðu í dag vegna kosninganna í september. Þeir hafa báðir gefið kost á sér til embættis kanslara.
Armin Laschet (t.v.) og Markus Söder (t.h.) funduðu í dag vegna kosninganna í september. Þeir hafa báðir gefið kost á sér til embættis kanslara. EPA-EFE/CLEMENS BILAN

Spenna færðist í kapphlaupið um embætti kanslara Þýskalands í dag þegar Markus Söder, ríkisstjóri Bæjarlands og formaður Kristilegra demókrata í Bæjarlandi (CDS), tilkynnti framboð sitt til embættisins í dag. Armin Laschet, formaður Kristilegra demókrata (CDU), hefur þegar gefið kost á sér í embættið.

Angela Merkel, Þýskalandskanslari, hefur sinnt embættinu frá árinu 2005 en hún hefur ákveðið að stíga til hliðar í komandi kosningum í haust.

Markus Söder sagði í dag að hann væri tilbúinn til þess að stíga inn í embættið hljóti hann stuðning íhaldsmanna um land allt.

Keppinautur hans, Armin Laschet, var í byrjun árs kjörinn formaður Kristilegra demókrata og er nú ríkisstjóri Norðurrínar-Vestfalíu.

Forsvarsmenn flokkanna tveggja, CDS og CDU, funduðu í dag vegna málsins. Flokkarnir eru sameinaðir í alríkisstjórnmálum í Þýskalandi og munu þeir því aðeins bjóða fram einn kandídata til kanslaraembættisins saman. Ákvörðunar má vænta á næstu dögum.

„Við Markus Söder ræddum málið ítarlega fyrir daginn í dag. Við höfum báðir lýst yfir vilja okkar til þess að bjóða okkur fram til kanslara,“ sagði Laschet á blaðamannafundi í dag.

Söder tók undir þetta og sagði að þeir væru báðir vel til embættisins komnir og báðir viljugir til að fylla í skó Merkel.

„Það sem er mikilvægast í þessu er að við berum báðir mikla virðingu hver fyrir öðrum. Og ég vil segja þetta: sama hver verður valinn í lokin munum við vinna mjög vel saman.“


Tengdar fréttir

Flokkur Merkel tekur dýfu í sam­bands­lands­kosningum

Samkvæmt útgönguspám munu Kristnir Demókratar, flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara, tapa sambandslandskosningum í Baden-Württemberg og Rínarland-Pfalz. Þetta er mikið högg fyrir flokkinn en kosningarnar eru sagðar gefa til kynna hvernig þingkosningar muni fara í haust.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.