Erlent

Flokkur Merkel tekur dýfu í sam­bands­lands­kosningum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Flokkur Angelu Merkel hefur tekið mikla fylgisdýfu undanfarið. 
Flokkur Angelu Merkel hefur tekið mikla fylgisdýfu undanfarið.  EPA-EFE/RAINER KEUENHOF

Samkvæmt útgönguspám munu Kristnir Demókratar, flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara, tapa sambandslandskosningum í Baden-Württemberg og Rínarland-Pfalz. Þetta er mikið högg fyrir flokkinn en kosningarnar eru sagðar gefa til kynna hvernig þingkosningar muni fara í haust.

Flokkurinn hefur verið mikið gagnrýndur undanfarið vegna nýlegs skandals innan flokksins og vegna ásakana um að flokkurinn hafi misnotað vald sitt til að breyta dreifingaráætlun bóluefnis gegn Covid-19.

Sambandslandsþingkosningar fóru fram í dag í sambandslöndunum Baden-Württemberg og Rínarlandi-Pfalz og var kjörstöðum lokað klukkan sex að staðartíma í kvöld. Útgönguspár gefa til kynna að Kristnir Demókratar fái 23 prósent atkvæða í Baden-Württemberg og 26 prósent atkvæða í Rínarland-Pfalz. Flokkurinn hefur aldrei fengið minna fylgi í sambandslöndunum tveimur.

Græningjar fengu samkvæmt útgönguspám 31 prósent atkvæða í Baden-Württemberg og Sósíaldemókratar 34,5 prósent atkvæða í Rínarlandi-Pfalz.

Útgönguspár gefa einnig til kynna að öfgahægriflokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland (Alternative for Germany) hafi farið minnkandi, 11,5 prósent atkvæða í Baden-Württemberg og 10,5 prósent í Rínarlandi-Pfalz, sem er mun lægra en fyrri spár gáfu til kynna.

Nokkrar líkur eru á að niðurstöður kosninga muni ekki liggja fyrir fyrr en eftir nokkra daga. Um 60 prósent kjósenda í Rínarland-Pfalz kusu utan kjörfundar, og sendu kjörseðla sína með pósti. Þá hefur þeim sem kosið hafa utan kjörfundar í Baden-Württemberg farið fjölgandi á undanförnum árum, en nákvæmar tölur fyrir þessar kosningar liggja ekki fyrir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×