Erlent

Ítalir skella í lás yfir páska: Um 20 þúsund greinast á degi hverjum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hermenn ræða við farþega á lestarstöð. Öll ónauðsynleg ferðalög milli svæða hafa verið bönnuð.
Hermenn ræða við farþega á lestarstöð. Öll ónauðsynleg ferðalög milli svæða hafa verið bönnuð. epa/Paolo Salmoirago

Ítalía er eldrauð þegar kemur að kórónuveirufaraldrinum og hefur allt verið sett í lás í þrjá daga til að koma í veg fyrir enn meiri fjölgun tilvika yfir páska. Um 20 þúsund ný tilfelli Covid-19 greinast nú á degi hverjum.

Allar óþarfa ferðir eru bannaðar en fólki verður heimilt að deila páskamáltíð heima með tveimur öðrum fullorðnum einstaklingum. Kirkjur verða opnar en fólk er beðið um að sækja messu nálægt eigin heimili.

Annað árið í röð mun Frans páfi flytja páskaávarp sitt fyrir auðu St. Péturstorgi.

Að loknum páskum munu svæði ýmist verða skilgreind sem appelsínugul eða rauð fram til mánaðamóta. Um 3,6 milljónir manna hafa smitast af SARS-CoV-2 á Ítalíu og 110 þúsund látist af völdum Covid-19.

Fyrsta apríl greindust 23.634 ný tilvik í landinu og 501 létu lífið.

Samkvæmt hertum reglum hefur öllum „ónauðsynlegum“ verslunum verðið lokað og veitingastaðir og kaffihús mega aðeins bjóða fólki upp á að sækja eða fá sent heim.

Yfirvöld hafa tilkynnt að lögreglumönnum verður fjölgað um 70 þúsund til að hafa eftirlit með því að farið sé að reglum. Innanríkisráðherrann Luciana Lamorgese sagði þetta ekki tímann til að slaka á, þar sem nú sæist loks til lands með fjölgun bólusetninga.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.