Innlent

Langflestir virðast hafa afbókað ferðina til Íslands

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fosshótel við Þórunnartún er nú sóttkvíarhótel. Öllum farþegum sem koma frá svokölluðum dökkrauðum svæðum er skylt að fara í sóttkví á hótelinu við komu sína til landsins.
Fosshótel við Þórunnartún er nú sóttkvíarhótel. Öllum farþegum sem koma frá svokölluðum dökkrauðum svæðum er skylt að fara í sóttkví á hótelinu við komu sína til landsins. Vísir/Vilhelm

Hundrað og tuttugu manns dvöldu í sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún í nótt. Útlit er fyrir að langflestir hafi afbókað ferð sína til landsins því viðbúið var að ríflega sex hundruð manns yrðu þar í nótt.

„Nóttin gekk bara ljómandi vel. Það voru ekki margir farþegar sem komu með vélinni frá Póllandi í nótt, ekki eins margir og búist var við, þannig að það gekk allt bara mjög hratt og vel fyrir sig,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttkvíarhótelsins.

„Við erum bara í þeirri stöðu að við vitum aldrei hversu margir koma með hverri vél. Við fáum ekki þær upplýsingar fyrr en vél er lent og afgreidd. Þannig að þær tölur sem birtar voru í upphafi hafa ekki verið að standast. Við erum ekki með nema rétt rúmlega 120 manns í húsi en samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfðum hefðu þær átt að vera í kringum sex hundruð,“ bætir hann við.

U21 árs landsliðsteymi Íslands er á meðal þeirra sem dvelja á hótelinu en fótboltakapparnir eru ekki par sáttir við að þurfa að vera þar yfir páskana. Þjálfarinn birti færslu þar sem hann sagði að eftir átta skimanir og einangrun í Ungverjalandi taki nú við dvöl í sóttkvíarhóteli fram á þriðjudag, og birti mynd af sér gefa ljósmyndara puttann með færslunni. Gylfi segir flesta þó taka þessum nýju reglum með ró.

„Fólk hefur ákveðnar spurningar, að sjálfsögðu, þegar það kemur. En það er líka þannig að um leið og fólk kveikir á símanum sínum upp á velli fá þau skilaboð með öllum leiðbeiningum þannig að það ætti ekki að fara fram hjá neinum.”

Gylfi segir að gert sé vel við fólk á hótelinu. „Fólk fær mat tvisvar á dag og allt slíkt. Það þarf enginn að verða svangur hjá okkur,” segir hann.

Hvað með páskamatinn? „Ég hef ekki haft tíma til að skoða páskamatseðilinn en það verður eitthvað got tog páskalegt.”

Þá greindi RÚV frá því í morgun að einn í sóttkvíarhótelinu hafi greinst með Covid19 í dag og hafi í framhaldinu verið fluttur í farsóttahúsið.


Tengdar fréttir

Sjö hundruð hótelherbergi fyrir fólk í sóttkví

Gert er ráð fyrir að sjö hundruð herbergi verði nýtt fyrir þá sem verða skikkaðir í sóttkví á hóteli eftir komuna til landsins. Forstjóri Sjúkratrygginga segir greiðslur farþega vega þungt í heildarkostnaði.

Fosshótel Reykjavík verður sóttkvíarhótel

Rauði krossinn hefur fallist á beiðni stjórnvalda um umsjá nýs sóttkvíarhótels sem verður opnað vegna hertra sóttvarnarráðstafana á landamærum sem taka gildi á fimmtudaginn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.