Erlent

Barn meðal látinna í þriðju fjölda­­skot­á­­rásinni á innan við mánuði

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. AP/Jae C. Hong

Fjögur létust, þar af eitt barn, í skotárás á skrifstofubyggingu í úthverfi Los Angeles í Bandaríkjunum í gær. Hinn grunaði særðist í skotbardaga við lögregluna og hefur verið handtekinn.

Frá þessu greinir Reuters-fréttastofan. Ásamt byssumanninum særðist einn annar. Árásin átti sér stað í borginni Orange, suðaustur af miðborg Los Angeles. Um er að ræða þriðju mannskæðu fjöldaskotárásina í Bandaríkjunum á innan við mánuði.

Reuters hefur eftir Jennifer Amat, hjá lögreglunni í Orange, að hinn grunaði hafi verið fluttur á sjúkrahús eftir að hann var handtekinn, ásamt öðrum sem særðist í árásinni. Lögregla hefur ekki greint frá því hvort hún telji sig vita hvað býr að baki árásinni.

Fyrir rúmum tveimur vikum létust átta í árásum á þrjár mismunandi heilsulindir í Atlanta í Georgíuríki. Lögregla telur sama mann vera að baki þeim öllum. Sex þeirra átta sem létust voru asískar konur og hefur árásin vakið upp mikla umræðu í Bandaríkjunum um þá fordóma sem fólk af asískum uppruna hefur mátt þola þar í landi.

Fyrir rúmri viku létust svo tíu í Boulder í Colorado þegar byssumaður hóf skothríð í matvöruverslun. Maðurinn var vopnaður herriffli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×