Erlent

Hætta notkun bóluefnis AstraZeneca fyrir yngra fólk

Kjartan Kjartansson skrifar
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, hitti starfssystkini sín hjá sambandslöndunum á neyðarfundi í dag. Þau ákváðu að takmarka notkun bóluefnis AstraZeneca.
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, hitti starfssystkini sín hjá sambandslöndunum á neyðarfundi í dag. Þau ákváðu að takmarka notkun bóluefnis AstraZeneca. Vísir/EPA

Þýsk yfirvöld hafa ákveðið að gefa fólki yngra en sextugu ekki bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni vegna einstakra tilfella blóðtappa sem tilkynnt hefur verið um í fólki sem hefur fengið efnið. Lyfjastofnanir Evrópu og Bretlands hafa báðar mælt með áframhaldandi notkun bóluefnisins.

Fjöldi Evrópuríkja, þar á meðal Ísland, hætti notkun bóluefnis AstraZeneca tímabundið vegna tilkynninga um sjaldgæfa tegund blóðtappa. Í Þýskalandi hefur verið tilkynnt um 31 slíkt tilfelli hjá þeim hátt í 2,7 milljónum manna sem hafa fengið bóluefnið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Nær öll tilfellin hafa greinst í yngri og miðaldra konum.

Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, og heilbrigðisráðherrar þýsku sambandslandanna sextán, ákváðu að hætta notkun bóluefnisins fyrir fólk yngra en sextugt á neyðarfundi í dag. Ákvörðunin var að tillögu bóluefnanefndar Þýskalands.

Í Kanada hefur notkun efnisins einnig verið takmörkuð við fólk sem er eldra en 55 ára og í Frakklandi sömuleiðis.

Þrátt fyrir það segja lyfjastofnanir Evrópu og Bretlands að ávinningur bóluefnis AstraZeneca vegi mun þyngra en möguleg áhætta við það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×