Erlent

Forsetinn líkir nýjum kosningalögum í Georgíu við Jim Crow

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögin eru sögð munu gera svörtum mun erfiðara fyrir að kjósa en margir svartir Bandaríkjamenn eiga til dæmis ekki skilríki.
Lögin eru sögð munu gera svörtum mun erfiðara fyrir að kjósa en margir svartir Bandaríkjamenn eiga til dæmis ekki skilríki. epa/Erik S. Lesser

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur líkt nýjum kosningalögum í Georgíu við ódæðisverk og kallað þau „Jim Crow á 21. öldinni“. Biden varð í fyrra fyrsti demókratinn til að tryggja sér kjörmenn ríkisins frá 1992.

Í yfirlýsingu sem birt var í gær sagði forsetinn að ítrekaðar endurtalningar og dómsmál hefðu staðfest þá niðurstöðu að kosningarnar í Georgíu hefðu verið réttmætar, þrátt fyrir staðhæfingar Donald Trump og stuðningsmanna hans um kosningasvik.

Nýju lögin fela meðal annars í sér að nú verður fólk að sýna skilríki áður en það fær afhent utankjörfundaratkvæðaseðil og þá verður fjöldi kjörkassa, það er staða þar sem hægt er að skila utankjörfundaratkvæðum, takmarkaður.

Áður dugði að staðfesta móttöku kjörseðilsins með undirskrift.

Einnig verður ólöglegt að færa þeim sem bíða í röð til að kjósa mat og drykk.

„Í stað þess að fanga rétti allra Georgíu-búa til að kjósa og sigra í kosningum á grundvelli hugsjóna þeirra, hafa repúblikanar þess í stað flýtt í gegn óamerískum lögum til að neita fólki um réttinn til að kjósa,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu Biden.

Sagði hann um að ræða óforskammaða árás á stjórnarskrána og góða samvisku.

Snemma í gær var Park Cannon, þingkona demókrata í Georgíu, handtekinn fyrir að banka ítrekað á dyr ríkisstjórans Brian Kemp á meðan hann undirritaði frumvarpið. Hún er meðal þeirra sem hafa sagt lögin „Jim Crow í nýjum búningi“.

Jim Crow voru þau lög sem kváðu um aðskilnað milli svartra og hvítra á 19. og 20. öld.

BBC greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×