Erlent

Ný bylgja muni brotna á varnargarði bólusettra einstaklinga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Forsætisráðherrann sagði að stundum hefði baráttan verið háð í myrkri en vísindin hefðu kveikt ljósið.
Forsætisráðherrann sagði að stundum hefði baráttan verið háð í myrkri en vísindin hefðu kveikt ljósið. Getty

„Eftir á að hyggja er eflaust margt sem við vildum óska að við hefðum vitað og margt sem við vildum óska að við hefðum gert öðruvísi, eftir á að hyggja, af því að við vorum að berjast við nýjan sjúkdóm undir allt öðruvísi kringumstæðum en nokkur fyrrverandi stjórnvöld gátu ímyndað sér.“

Þetta sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á blaðamannafundi í dag þar sem hann fór yfir stöðu kórónuveirufaraldursins í landinu og leit bæði um öxl og til framtíðar.

Hann sagði að á „réttum tímapunkti“ yrði minnisvarði reistur þeim sem látið hefðu lífið af völdum SARS-CoV-2 og að tímabilsins alls yrði minnst. Þá sagði hann framtíð landsins velta á því að skólabörnum og öðru námsfólki yrði bættur sá skaði sem það hefði orðið fyrir.

„Ég tel sannarlega að þetta sé eitthvað sem við munum öll minnast og kljást við á ólíkan hátt, og í mínu tilviki, eins lengi og ég lifi,“ sagði Johnson, sem veiktist sjálfur alvarlega af Covid-19.

Þjóðin hefði sýnt hugrekki og þolgæði

Johnson hrósaði þjóðinni fyrir hugrekki og aga og sagði hana hafa sýnt mikið þolgæði. Þjóðin hefði upplifað mikinn missi en samkvæmt nýjustu gögnun hafa 149.117 látist af völdum Covid-19 í Bretlandi frá því að heimsfaraldurinn fór af stað.

Forsætisráðherrann sagði að á sumum tímum hefði baráttan verið háð í myrkri en vísindin hefðu kveikt ljósið og hjálpað ríkjum heims að ná vopnum sínum með þróun bóluefna.

Johnson sagði að eftir þrjár umferðir harðra sóttvarnaaðgerða væru Bretar smám saman að endurheimta frelsið, skref fyrir skref, og með hverri bólusetningu.

Aðalráðgjafi breskra stjórnvalda í heilbrigðismálum, Chris Whitty, sagði ójöfnur og sveigjur á veginum en að ný bylgja myndi brotna á varnargarði bólusettra einstaklinga. Hann sagði að það hefði ekki verið fyrr en fólk fór að leggjast inn á spítala og deyja sem menn áttuðu sig á hversu hratt ástandið var að þróast.

Annar ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, Patrick Vallance, gekkst hins vegar við því að miklu hefði munað ef meira hefði verið skimað í upphafi faraldursins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.