Erlent

Spánn fjórða Evrópu­ríkið til að lög­leiða dánar­að­stoð

Atli Ísleifsson skrifar
Ekki voru allir á eitt sáttir með frumvarpið sem nú er orðið að lögum. Andstaðan var mikil hjá þingmönnum hægriflokka og sömuleiðis kaþólsku kirkjunni.
Ekki voru allir á eitt sáttir með frumvarpið sem nú er orðið að lögum. Andstaðan var mikil hjá þingmönnum hægriflokka og sömuleiðis kaþólsku kirkjunni. AP

Spænska þingið samþykkti í dag að heimila dánaraðstoð og líknardráp hjá sjúklingum sem glímt hafa við ólæknandi sjúkdóma til að gefa þeim möguleika á að binda enda á þjáningar sínar. Spánn verður þar með sjöunda ríki heims til að lögleiða dánaraðstoð og það fjórða í Evrópu.

202 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu, en 141 greiddi atkvæði gegn.

„Í dag er þetta orðið mannúðlegra, réttlátara og frjálsara land. Dánaraðstoðarlögin, sem nýtur mikils stuðnings meðal þjóðarinnar, er loks orðið að veruleika,“ sagði forsætisráðherrann Pedro Sanchez að lokinni atkvæðagreiðslunni á spænska þinginu.

Með lögunum verður sjúklingum, sem eru með alvarlega og ólæknandi sjúkdóma eða meiðsli, heimilt að fá aðstoð lækna með að binda á líf sitt til að koma í veg fyrir frekari þjáningar. 

Sjúklingurinn verður að vera talinn með fulla meðvitund þegar beiðni um dánaraðstoð er lögð fram og þá þarf að senda skriflega beiðni í tvígang, með fimmtán daga millibili, eigi læknar að taka beiðni sjúklingsins til meðferðar.

Auk stjórnarflokkanna – Jafnaðarmannaflokksins PSOE og vinstriflokksins Podemos – greiddu þingmenn hins frjálslynda Ciudadanos atkvæði með frumvarpinu, en lögin munu taka gildi í júní.

Þingmenn íhaldsflokksins PP og hægri öfgaflokksins Vox, sem og kaþólska kirkjan mótmæltu frumvarpinu hins vegar harðlega.

Önnur ríki í Evrópu sem hafa lögleitt dánaraðstoð eru Belgía, Holland og Lúxemborg.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.